Á slóðum miðbæjarrottunnar - fjölskylduganga

Auður Þórhallsdóttur, rithöfundur

Á afmælisdegi Reykjavíkurborgar, fimmtudaginn 18. ágúst, leiðir Auður Þórhallsdóttir göngu um miðborg Reykjavíkur þar sem göngufólk slæst í för með miðbæjarrottunni Rannveigu. Í tilefni afmælisins býður Bókmenntaborgin upp á þessa skemmtilegu göngu fyrir alla fjölskylduna.

Miðbæjarrottan Rannveig er söguhetjan í bók Auðar, Miðbæjarrottan – Borgarsaga.

Gangan hefst kl. 18 við styttu Ingólfs Arnarssonar á Arnarhóli og lýkur um klukkustund síðar við vesturenda Tjarnarinnar.

Miðbæjarrottan Rannveig er öllum hnútum kunnug í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún býr. Það sama er ekki hægt að segja um frænku hennar, Karlottu, sem kemur í heimsókn til Reykjavíkur úr sveitinni og villist. Rannveig fer því á stúfana að leita að Karlottu frænku og fær aðstoð hjá styttum bæjarins, sem muna margar tímana tvenna, enda er saga þeirra nátengd sögu borgarinnar. Rannveig býr reyndar sjálf í einni styttunni, eins og Bardúsa amma hennar og hún veit fátt skemmtilegra en að heyra sögur af því hvernig lífið var í gamla daga. Ef stytturnar eru grannskoðaðar má kannski koma auga á litlar dyr að heimilum miðbæjarrottanna. Í göngunni þræða gestir sömu slóð og Rannveig fer í bókinni þegar hún leitar að Karlottu frænku.

Auður Þórhallsdóttir er ljósmyndari og mynd- og rithöfundur. Hún hefur sent frá sér nokkrar bækur fyrir börn þar sem hún bæði skrifar textann og gerir  myndirnar. Bækurnar um miðbæjarrottuna eru nú orðnar tvær, Miðbæjarrottan – Borgarsaga (2020) og Miðbæjarrottan – Þetta kemur allt með kalda vatninu (2022) og von er á fleirum.

Öll börn, ásamt fylgdarfólki þeirra, eru hjartanlega velkomin í þessa fríu göngu. Hún er á vegum Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO og hluti af kvöldgöngudagskrá menningarstofnana Reykjavíkurborgar.