Slembival í íbúaráð Reykjavíkurborgar

Samgöngur Velferð

""

Slembival í íbúaráð Reykjavíkurborgar er í þann mund að hefjast. Tilgangurinn með íbúaráðum er að valdefla íbúa og auka aðkomu þeirra að ákvarðanatöku. Kynningarbæklingi hefur verið dreift í hús í borginni til upplýsingar um verkefnið.

Hverfisráð Reykjavíkurborgar hafa verið vettvangur stamstarfs innan hverfa borgarinnar frá árinu 2002. Þar hefur átt sér stað samráð íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda, og hafa hverfisráð verið virkir þátttakendur í allri stefnumörkun hverfanna. Á fundi mannréttinda- og lýðræðisráðs þann 13. september 2018 var skipaður stýrihópur með það hlutverk að endurskipuleggja framtíðarskipan fyrir hverfisráð. Tillögur stýrihópsins voru samþykktar á fundi borgarstjórnar 7. maí 2019.

Tilraunaverkefni til tveggja ára

Stofnuð verða níu íbúaráð en hvert ráð verður skipað sex fulltrúum. Þrír fulltrúar verða kjörnir af borgarstjórn, tveir skipaðir úr hópi íbúa af virkum grasrótarsamtökum og einn valinn með slembivali úr hópi íbúa á hverju svæði. Með slembivali er átt við að valdir verða einstaklingar af handahófi og boðin þátttaka í íbúaráði í sínu hverfi. Um tilraunaverkefni til ársloka 2020 er að ræða. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur umsjón með framkvæmd slembivalsins. Kynningarbæklingur

Íbúaráðin

Íbúaráð styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar, stuðla að aukinni upplýsingagjöf til íbúa og styrkja möguleika íbúa á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Tilgangurinn með íbúaráðum er að valdefla íbúa og auka aðkomu þeirra að ákvarðanatöku. Ein helsta áskorun íbúaráða er að tryggja breiða þátttöku íbúa.

 Íbúaráðin eru eftirfarandi:

Íbúaráð Kjalarness

Íbúaráð Grafarvogs

Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals

Íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts

Íbúaráð Breiðholts

Íbúaráð Laugardals

Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis

Íbúaráð Vesturbæjar

Íbúaráð Miðborgar og Hlíða

Slembivaldir borgarbúar - frjáls þátttaka

Með því að slembivelja einn fulltrúa í hvert íbúaráð er gerð tilraun til að ná til ólíkra hópa íbúa í hverju hverfi fyrir sig. Ekki er gerð krafa til borgarbúa að taka þátt í slembivalinu og slembivöldum einstaklingum verður gefinn kostur á að samþykkja eða hafna stöðu fulltrúa eða varafulltrúa í sínu hverfi.

Slembivaldir fulltrúar þurfa að hafa náð 18 ára aldri og sjá sér fært að mæta á fundi íbúaráðsins mánaðarlega. Þeir einir geta tekið sæti í íbúaráði sem hafa kosningarétt í Reykjavík. Starfsmenn Reykjavíkurborgar geta ekki tekið sæti fulltrúa í íbúaráði.

Borgarbúar sem vilja ekki að persónuupplýsingar þeirra verði hluti af slembivalsúrtakinu geta fram að 10. nóvember 2019 farið fram á slíkt með tvennum hætti:

1. Með því að fara inn á eftirfarandi vefslóð http://slembival.reykjavik.is/ og skrá þig þar inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum og velja „ég vil ekki taka þátt í slembivali fyrir íbúaráð“.

2.   Með því að undirrita til þess gerða yfirlýsingu samhliða framvísun persónuskilríkum í móttöku ráðhússins við Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík eða Borgartún 12-14, 105 Reykjavik frá kl. 08:20-16:15 alla virka daga.

Eftir að slembival er framkvæmt

Þegar tveir einstaklingar hafa verið slembivaldir fyrir hvert hverfi verður þeim sendur bréfpóstur og boðið að taka sæti fulltrúa eða varafulltrúa í íbúaráði í sínu hverfi. Verður slembivöldum borgarbúum veittur tíu daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að samþykkja eða afþakka boðið. Hafi viðkomandi ekki svarað innan fimm daga frá dagsetningu bréfsins mun starfsmaður Reykjavíkurborgar hafa samband við viðkomandi símleiðis og vekja athygli hans á því að frestur til að samþykkja þátttöku í íbúaráði sé að renna út. Kjósi viðkomandi að afþakka sæti í íbúaráði er slembivalið að nýju þangað til að haft er samband við einstakling sem kýs að taka sæti, annað hvort sem fulltrúi eða sem varafulltrúi, uns slembivalið hefur verið í öll fulltrúasæti íbúaráða.

Eftir að tveir slembivaldir borgarbúar sem uppfylla skilyrði til setu í íbúaráðum hafa samþykkt að taka við hlutverki fulltrúa og varafulltrúa í hverju hverfi verður niðurstaðan lögð fyrir stýrihóp um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráð.

Þóknun

Fulltrúar fá greidda mánaðarlega þóknun að fjárhæð 57.287 krónur fyrir þátttöku í íbúaráðum, en varamenn hljóta 18.618 krónur fyrir hvern fund sem þeir taka þátt í.

Nánari upplýsingar má nálgast með því að hafa samband við þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411-1111 milli kl. 08:20 og 16:15 eða senda fyrirspurn á slembival@reykjavik.is.