Skrifað undir kjarasamning við Eflingu

Atvinnumál Mannréttindi

""

Verkfalli starfsfólks Eflingar hjá Reykjavíkurborg er lokið þar sem kjarasamningur var undirritaður í nótt eftir þriggja vikna langt verkfall.

Félagar í Eflingu munu því snúa aftur til vinnu í dag, 10. mars. Kjarasamningurinn er byggður á Lífskjarasamningnum svokallaða sem gerir ráð fyrir 90.000 króna launahækkun fyrir alla á samningstímanum, en þeir sem eru á lægstu laununum fá allt að 112.000 króna kauphækkun. Þá var samið um styttingu vinnuvikunnar um allt að átta stundir fyrir vaktavinnufólk á þrískiptum vöktum og 36 stunda vinnuviku fyrir daglaunafólk.

Reykjavíkurborg hafði áður en gengið var til kjarasamninga við verkalýðsfélögin farið í umfangsmikið tilraunaverkefni í styttingu vinnuvikunnar sem náði yfir fimm ára tímabil. Fækkun vinnustunda á viku hefur lengi verið baráttumál verkalýðshreyfingarinnar. Það er því ljóst að um tímamótasamninga er að ræða bæði fyrir vinnandi stéttir og vinnuveitendur.

Kjarasamningurinn gildir fyrir 1.850 félaga í Eflingu sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Mikill meirihluti þeirra eru konur í umönnunar- hreingerninga- og mötuneytisstörfum.

Gildistími samningsins er til 31. mars. 2023.