Skóflustunga að nýjum Landspítala | Reykjavíkurborg

Skóflustunga að nýjum Landspítala

laugardagur, 13. október 2018

Fjölmenni var við skóflustunga að nýju þjóðarsjúkrahúsi við Hringbraut í dag. Nýtt sjúkrahús mun gjörbylta allri aðstöðu heilbrigðisþjónustu í landinu. Upphaf framkvæmdanna er einnig merk tímamót í skipulagsmálum í Reykjavík.

 • Skóflustunga við nýjan Meðferðarkjarna Landspítala.
  Glatt var á hjalla við skóflustunguna í dag.
 • Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
  Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar tók skóflustunguna fyrir Reykjavíkurborg í stað Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.
 • Við skóflustungu að nýjum meðferðarkjarna en fjölmargir lögðu hönd á skóflu við þetta tækifæri.
  Við skóflustungu að nýjum meðferðarkjarna en fjölmargir lögðu hönd á skóflu við þetta tækifæri enda ekkert smáræðis verkefni að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús.
 • Nýr meðferðarkjarni Landspítalans. Tölvuteiknuð mynd.
  Svona mun meðferðarkjarninn líta út. Hann mun tengjast öðrum byggingum á svæðinu. Myndin er tölvuteiknuð og þarf ekki að sýna endanlegt útlit.
 • Tölvuteiknuð mynd af nýju þjóðarsjúkrahúsi.
  Svona gæti svæðið litið út þegar framkvæmdum lýkur. Myndin er tölvuteiknuð og þarf ekki að sýna endanlegt útlit.

Sól skein í heiði í dag þegar skóflustunga var tekin að nýju þjóðarsjúkrahúsi við Hringbraut. Ráðherrar ásamt fulltrúum félaga, hagsmunasamtaka og stofnana tóku fyrstu skóflustungu að nýjum meðferðarkjarna. Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar tók skóflustunguna í stað Dags B. Eggertssonar borgarstjóra en hann sendi viðstöddum góða kveðju úr veikindaleyfi.

Viðstaddir skóflustunguna voru einnig fyrrverandi heilbrigðisráðherrar auk fjölmargra annarra gesta. Áætlað er að meðferðarkjarninn verði tekinn í notkun árið 2024.

Meðferðarkjarninn sem framkvæmdir hefjast nú við er stærsta byggingin í Hringbrautarverkefninu og mun gegna lykilhlutverki í starfseminni. Kjarninn er hugsaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss. Húsnæðið verður tengt öðrum starfseiningum Landspítala með tengigöngum og tengibrúm. Meðferðarkjarninn verður á sex hæðum auk tveggja hæða kjallara.

Við athöfnina í dag sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. ,,Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Dagurinn í dag markar tímamót í heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Nýtt sjúkrahús mun gerbylta allri aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, ekki síst fyrir sjúklinga, starfsmenn og aðstandendur.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, sagði táknrænt að sólin skini við upphaf þessa mikla verkefnis og óskaði þjóðinni til hamingju með tímamótin.  „Þetta eru stærstu tímamót í sögu Landspítala frá því hann reis fyrst hér við Hringbraut fyrir tilstilli íslenskra kvenna. Mér er efst í huga þakklæti fyrir elju þeirra sem hafa barist fyrir verkefninu í áratugi og þeirra sem nú fylgja því úr hlaði,“ sagði Páll.  

Að sögn Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra NLSH, gera  áætlanir ráð fyrir að byggingu spítalans verði lokið 2024. 

Aðalhönnuður meðferðarkjarnans er Corpus3 hópurinn en Spital-hópurinn sér um gatna-, veitna- og lóðahönnun.

Nánari upplýsingar

Allar upplýsingar um framkvæmdina eru birtar á upplýsingasíðum NLSH, Landspítala og Háskóla Íslands. Einnig mun upplýsingum verða reglulega komið á framfæri í fjölmiðlum ef breytingar verða á umferðarfyrirkomulagi.