Skapandi fólk fær húsnæði hjá borginni

Stjórnsýsla Mannlíf

""

Húsnæði fyrir skapandi verkefni í Gufunesi, Bryggjuhverfi og Skerjafirði verður afhent í þessum mánuði. Borgarráð staðfesti í gær 44 leigusamninga fyrir nærri 11 þúsund fermetra húsnæðis.

Ákveðið var að nýta húsnæði borgarinnar til að skapa viðspyrnu í erfiðu efnahagsástandi eftir að Covid-faraldurinn kom upp. Við ráðstöfun húsnæðisins var sérstaklega horft til þess að það nýttist skapandi greinum, nýsköpun, sprotastarfsemi og samfélagslegum verkefnum. Húsnæðið sem um ræðir er ýmist ekki í notkun eða er að losna. Ástand þess er með ýmsu móti og gert er ráð fyrir að leigjendur lagi það að eigin þörfum. Horft var til hagstæðari leigukjara í þessu ljósi. 

Rúmlega hundrað umsóknir   

Alls bárust 109 umsóknir og við mat þeirra var horft til nokkurra þátta. Starfsemin skyldi falla að vel að því samfélagi sem fyrir er og var til dæmis litið til þess að í Gufunesi er kvikmyndagerð og tengd starfsemi að festa rætur. Einnig var horft á mögulegt samstarf milli notenda og hugsanlega samnýtingu húsnæðis. Þannig voru líklegir leigjendur boðaðir á vettvang samtímis og leiddi það víða til samstarfshugmynda.

Listafélag í Skeljanesi 

Þrír listahópar voru meðal þeirra sem sóttu um húsnæði í Skeljanesi við Skerjafjörð og í framhaldi af viðtölum stofnuðu þau sem standa að þeim sameiginlegt listafélag sem heitir Klúbburinn.

Hóparnir sem þarna renna saman eru:

  • Skelin sem sinnir tónlist, myndlist, hönnun, dans, sviðslistum og myndbandagerð.​
  • Strokuselurinn fyrir gjörninga og hrá sviðsverk​.
  • Post-menningarfélag fyrir tónlistariðkun ungs fólks og skapandi tónvinnslu.

Borgarráð samþykkti að úthluta báðum húsunum í Skeljanesi til þessarar starfsemi.

Samsteypustöðin í Bryggjuhverfið  

Á iðnaðarsvæðinu við Sævarhöfða þar sem framtíðaruppbygging Bryggjuhverfisins verður voru fimm hús eða einingar í boði, ýmist verkstæðis- eða skrifstofubyggingar, auk húsnæðis sem áður var notað sem mötuneyti. Mörg verkefni sem fengu leigusamning á þessu svæði tengjast samfélagslegum verkefnum. Meðal annars er að verða til samstarfsvettvangur undir heitinu Samsteypustöðin, en þar koma saman annars vegar félagsskapurinn Komið úr skúrunum, sem tengist tónlist í bílskúrum borgarinnar og hins vegar Valdeflandi starf fyrir fatlaða einstaklinga á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og tengist starfi í Arnarbakka (Smíey) og Völvufelli (Opus).

Klifurveggur og veggjalist 

Í nærliggjandi verkstæðisbyggingu verður svo fjölnota rými fyrir tómstundastarf þar sem Hjólakraftur mun setja upp allskyns búnað til leikja innanhúss eins og Zip-line og klifurvegg. Einnig verður ungu vegglistafólki boðið að skreyta rýmið. Forsvarsmaður Hjólakrafts er Þorvaldur Daníelsson, sem fyrr á árinu fékk útnefninguna Reykvíkingur ársins.

Hjólakraftur fær einnig hluta af mötuneytisbyggingu á svæðinu og deilir þar rými með Þórhildi Kristjánsdóttur listamanni sem mun bjóða upp á námskeið í opinni vinnustofu sinni þar sem unnið er með leir, gler og blandaða tækni.

Abbababb! og rúlludiskó 

Í samtengdri skrifstofu- og verkstæðisbyggingu, sem nú síðast hýsti fyrirtækið Björgun, verður tímabundið kvikmyndagerð og jaðarmenningarsetur. 

Kvikmyndafélag Íslands fær skrifstofubygginguna vegna vinnu við gerð bíómyndarinnar Abbababb, dans og söngvamynd eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur e. samnefndum söngleik Dr. Gunna.

Í verkstæðisbyggingunni verður svo tímabundið jaðarmenningarsetur og rúlluskautahöll til æfinga, námskeiða og viðburða ásamt reglulegum opnum viðburðum fyrir almenning t.d. rúlludiskó​. Þau sem eru í forsvari fyrir Hjólaskautafélagið RDÍ hyggjast bjóða öðrum jaðarlista- og íþróttafélögum s.s. Fálkum, CIB og hjólabrettafélögum til samstarfs, eins og segir í umsókn þeirra.

Gufunes verður segull í kvikmyndagerð 

Mest af því húsnæði sem boðið var til leigu er í Gufunesi og hefur það síðustu ár verið notað af Íslenska gámafélaginu sem vinnur að brottflutningi sínum af svæðinu. Unnið var með þá framtíðarsýn að í Gufunesi verði fjölbreytt listastarfsemi, auk öflugra og umhverfisvænna verkefna. Margvísleg starfsemi tengd kvikmyndaiðnaði hefur verið að festa rætur á svæðinu á undanförnum árum.

Í skrifstofubyggingu á tveimur til þremur hæðum verður margvísleg starfsemi, allt frá myndlistarstofum til hljóðvers. Á jarðhæð og í kjallara hússins verða 9 aðilar. Rósa Fanney Friðriksdóttir​ verður með leirvinnustofu; Baldur Garðarsson​ undirbýr bókaútgáfu um verk Garðars Loftssonar; Óskar Guðnason​ mun sinna málaralist og tónlistarstarfsemi​; Hjálmar Gunnlaugur Haraldsson var með leigusamning og fær framlengingu á honum; Móðir náttúra​ sem framleiðir grænmetisrétti fær einnig framlengingu á núverandi leigusamningi​; Birgir Jón Birgisson​ verður með upptökur og hljóðblöndun með áherslu á kvikmyndatónlist​; Dagný Sif Einarsdóttir sinnir myndlist og býður upp á námskeið fyrir börn, unglinga og fullorðna​; Sara Björg Hauksdóttir​ leigir vinnustofu með möguleika á þátttöku í sameiginlegum viðburðum​; Yrkill Mói-kidz​ er fyrirtæki sem er að hanna vörulínu úr lífrænum og endurnýtanlegum efnum, auk þess að leggja áherslu á samstarf listamanna og aðila í nýsköpun og sprotastarfsemi.

Á 2. hæð og í litlum rýmum á 3. hæð verða 7 aðilar sem tengjast kvikmyndum og myndlist. Sólrún Ósk Jónsdóttir​ vinnur í Stop-animation verkefnum sem teiknari og hönnuður​; Join Motion Pictures verður í vinnslu kvikmynda og sjónvarpsefnis, auk þess að taka þátt í uppbyggingu kvikmynda­þorpsins;  Margrét Kristjánsdóttir​ rekur opna vinnustofu með tengingu við Gallerí 101 Reykjavík​; Miðnætti leikhús​ er atvinnuleikhópur með áherslu á vandað leikhús og sjónvarpsefni fyrir börn​; Daníel Björnsson​ fær vinnustofu starfandi listamanns með reynslu af kvikmyndagerð; Karl Ómarsson​ fær vinnuaðstöðu fyrir myndlist​; Félag kvikmyndagerðarmanna​ fær aðstöðu til að vinna að hagmunamálum fagfólks í kvikmyndagerð.

Leikmyndir, lífstílsbreytingar, kvikmyndir og hönnun 

Í næsta húsi, verkstæðis- og skrifstofubyggingu, koma kvikmyndir einnig við sögu. Á 1. hæð verða Guðrún Öyahals​ með leikmynda- og búningahönnun í samstarfi fagaðila​; Björg Juto og Melkorka Matthíasdóttir​ fá aðstöðu fyrir leirlist, málaralist og vöru-/innanhússhönnun​; Helgi Þórsson og Guðlaug Mía​ verða með myndlistarstofu og Eyrún Huld​ verður með aðstöðu fyrir heildrænar lausnir til lífsstílsbreytinga. 

Á 2. hæð verða Shuyi Yi​ með grafíska hönnun fyrir kvikmyndir og vinnslu ljósmynda; Páll Sólnes​ með myndlist og hönnun​; Þurý Bára Birgisdóttir og félagar​, nemendur úr Kvikmyndaskóla Íslands, nýta sitt rými fyrir skapandi tækni en þau eru með verk í vinnslu; Anton Lyngdal Sigurðsson​ verður með myndlistarstofu; Aziz Bouriama​ mun opna hljóðver​; Davíð Arnar Runólfsson​ verður með listræna vinnslu ljósmynda í myrkraherbergi​.

Gamla áburðarverksmiðjan verður samstarfsvettvangur  

Í gömlu áburðarverksmiðjunni í Gufunesi verður samstarfsvettvangur myndlistar, arkitektúrs og verkfræði þar sem Narfi Þorsteinsson mun ásamt fleirum vinna út frá sjálfbærni og endurvinnslu efna. Þá verður Óskar Arnarson með Not-for-profit sýningarrými fyrir arkitektúr og hið manngerða umhverfi. Fyrsta sýning verður „Arkitektúr og Marshallaðstoðin“, en Óskar bendir á í sinni umsókn að  Áburðarverksmiðjan í Gufunesi hafi verið stærsta einstaka verkefni Marshallaðstoðarinnar og sé því í raun hið eina sanna Marshallhús.

Nýja starfsemin bætist við starfsemi fjögurra aðila sem voru fyrir með húsnæði. Orri og Dagur Kári​ eða Sirkafúsk hjóðver hefur þegar gert endurbætur á húsnæði, sem verður rekið áfram sem hljóðver; Þóra Björg Schram​ verður með sitt Textílstúdíó og Guðrún Nielsen​ og Helgi Gíslason​ verða áfram hvort með sína vinnustofuna.

Nýsköpunarmiðstöð, endurnýting og margnot  

Í tveimur stórum skemmum við sjávarsíðuna verða fjögur verkefni. Björn Loki og Elsa Jónsdóttir​ kalla sitt verkefni Gámahverfi þar sem sameinast listræn sköpunargáfa, ​viðskipti, opinber umræða og óhefðbundin opin samfélagsleg menntun. Vinnuheitið er Gufuhver – skapandi gámahverfi og nýsköpunarmiðstöð; Inga Lóa Guðjónsdóttir​ verður með þeim í skemmu og ætlar að bæta nýtingu á byggingarúrgangi með flokkun og mun þessi starfsemi gagnast öðrum í Gufunesi. ​

Í næstu skemmu verður Kaldara Group ehf.​, sem er með í þróun margnota og endurvinnanlega  fiskkassa sem eiga að koma í stað einnota frauðkassa​. Með þeim í skemmu verður Bambahús​, sem smíðar gróðurhús úr IBC tönkum, sem kallaðir hafa verið Bambar og gerðir eru til að flytja vökva. Slíkir bambar  hafa verið fluttir til landsins í stórum stíl en hafa haft þann ókost að vera gagnslausir þegar þeir hafa þjónað því hlutverki.  Samfélagsleg verkefni sem stuðla að grænni vitundarvakningu.

Tengt efni: 

Skapandi verkefni í húsnæði borgarinnar - upplýsingasíða