Skáksveit Rimaskóla í ævintýraferð í Færeyjum

Skóli og frístund

""

Skáksveit Rimaskóla í 5. - 7. bekk heimsótti á dögunum Færeyjar og tefldi við jafnaldra sína í færeyskum grunnskólum í Þórshöfn og Klaksvik.

Rimaskóli fékk á árinu 2018 úthlutað styrk frá vestnorræna höfuðborgarsjóðnum til að heimsækja Færeyjar og koma á skáksamstarfi við færeyska skákkrakka. Hópurinn fór á dögunum í þessa heimsókn og fékk höfðinglegar viðtökur. Fjnnbjörns Vang, forseti færeyska skáksambandsins, skipulagði fjölbreytta dagskrá fyrir hópinn sem tók þátt í tveimur skákmótum, annars vegar einstaklingsmóti og hins vegar nokkurs konar landskeppni á milli Færeyja og Rimaskóla. Sara Sólveig Lis í 7. bekk Rimaskóla sigraði á einstaklingsmótinu og lið Rimaskóla bar sigur í landskeppninni 20 - 14. Bæði mótin voru jöfn og spennandi allt til síðustu skákar. 

Fararstjórar skáksveitarinnar voru þeir Helgi Árnason fv. skólastjóri Rimaskóla og Björn Ívar Karlsson skákkennari skólans. 

Heimsókn Rimaskóla vakti áhuga stjórnarmanna í Skáksambandi Færeyja. Stjórnin boðaði til fundar í tilefni heimsóknarinnar og þar flutti Björn Ívar erindi um skákstarfið í Rimaskóla og fór yfir þær kennsluaðferðir sem hafa nýst honum vel.