Sértæk hjúkrunarrými á Droplaugarstöðum | Reykjavíkurborg

Sértæk hjúkrunarrými á Droplaugarstöðum

föstudagur, 2. febrúar 2018

Borgarstjóri, heilbrigðisráðherra og formaður MND félagsins voru á meðal þeirra sem kynntu sér í dag þrjú sértæk hjúkrunarrými sem búið er að opna á Droplaugarstöðum.

 • Almenn gleði er með samstarfið um sértæk hjúkrunarrými Droplaugarstaða.
  Almenn gleði er með samstarfið um sértæk hjúkrunarrými Droplaugarstaða.
 • Sigrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir og Jóhanna Davíðsdóttir.
  Hér kynnir Ingibjörg Ólafsdóttir, forstöðumaður, hjúkrunarstjóra á Droplaugarstöðum, þær Sigrúni Erlendsdóttur og Jóhönnu Davíðsdóttur
 • Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins ásamt formanni velferðarráðs, Elínu Oddný Sigurðardóttur.
  MND-félagði var ráðgefandi um rýmin og gaf sjónvarp, ísskáp og spegil í eitt þeirra. Hér spjallar Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins við Elínu Oddný Sigurðardóttur, formann velferðarráðs.
 • Ingibjörg Ólafsdóttir og Dagur B. Eggertsson.
  Ingibjörg Ólafsdóttir, forstöðumaður Droplaugarstaða og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
 • Páll Matthíasson og Svandís Svavarsdóttir.
  Páll Matthíasson, forstjóri Landsspítalans, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra skoða sértæku rýmin.
 • Ingibjörg Ólafsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir og Berglind Magnúsdóttir.
  Ingibjörg Ólafsdóttir, forstöðumaður á Droplaugarstöðum, Elín Oddný Sigurðardóttir, formaður velferðarráðs, og Berglind Magnúsdóttir. skrifstofustjóri öldrunar- og húsnæðismála hjá velferðarsviði Reykjavíkur.
 • Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir.
  Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson og heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir töldu bæði að frekara samstarf yrði milli borgar og ráðuneytis.

Samningur er milli heilbrigðisráðuneytisins, Landspítala Háskólasjúkrahúss og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um rekstur þriggja sértækra hjúkrunarrýma á Droplaugarstöðum. Rýmin eru fyrir fólk með þörf fyrir mikla og sérhæfða hjúkrun og umönnun, t.d. vegna meðferðar í öndunarvél. Þrír hjúkrunarfræðingar og átta almennir starfsmenn vinna við umönnun þessara einstaklinga.

Reykjavíkurborg leggur til húsnæðið en ráðuneytið fjármagnar nauðsynlegar húsnæðisbreytingar og kaup á búnaði og tækjum. Rekstrarkostnaður rýmanna þriggja er greiddur úr ríkissjóði.

Landspítalinn mun sjá starfsfólki fyrir þjálfun svo sem vegna öndunarvéla og annarrar sérhæfðrar meðferðar.  

Tvö þessarar rýma eru ætluð fyrir varanlega innlögn en þeir einstaklingar myndu að öðrum kosti þurfa að dvelja til langframa á Landspítalanum. Þriðja rýmið er fyrir hvíldarinnlögn langveikra einstaklinga sem eru með MND eða MS.

Það er færni- og heilsumatsnefnd höfuðborgarsvæðisins sem metur hvaða einstaklingar eru mestri þörf fyrir dvöl í sértæku hjúkrunarrýmunum á Droplaugarstöðum. Forstöðumaður Droplaugarstaða er Ingibjörg Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur.