Sérmerkt leigubifreiðastæði verða opin öllum leigubílum

Samgöngur

""

Frá og með laugardeginum 5. desember verður öllum leigubifreiðum heimilt að nota hvaða leigubílastæði sem er, óháð því hvaða stöð bílarnir eru frá. Sérmerkingar leigubílafyrirtækja verða teknar niður eigi síður en 15. janúar næstkomandi.

Tvær leigubifreiðastöðvar, Hreyfill og BSR, hafa haft sérmerkt leigubifreiðastæði í borgarlandi Reykjavíkur til afnota. Aðrar leigubifreiðastöðvar fóru fram á að öll stæði ætluð leigubifreiðum í borginni verði opin öllum leigubifreiðastöðvum. Það sjónarmið hafði komið fram að með því að veita heimild til notkunar á borgarlandi, í formi umræddra sérmerkinga, veitti borgin völdum fyrirtækjum samkeppnisforskot umfram önnur og skapaði aðstöðumun. Skipulags- og samgönguráð samþykkti breytt fyrirkomulag á fundi sínum 25. september 2019.

Hreyfill kærði ákvörðun Reykjavíkurborgar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis sem úrskurðaði í málinu 25. nóvember sl. Kröfu Hreyfils um að fella úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 16. janúar 2020 um að félagið fjarlægi sérmerkingar sem það hafi á tilgreindum stæðum eða öðrum stöðum í borgarlandi var synjað. Ráðuneytið telur að málefnaleg og lögmæt rök búi að baki ákvörðun Reykjavíkurborgar í málinu og því ekki unnt að fallast á kröfu kæranda. Vegna mikilla anna í ráðuneytinu dróst að kveða upp úrskurð í málinu og var beðið velvirðingar á því í úrskurðinum.

Skoða kort yfir helstu leigubifreiðastæði í borgarlandi.