Sérhver nemandi í leikskólafræðum mikilvægur

Skóli og frístund

""

Sextíu nemar á fyrsta ári í leikskólafræðum við Menntavísindasvið HÍ heimsóttu í morgun leikskólann Rauðhól og kynntu sér fagstarfið.

Guðrún Sólveig Vignisdóttir leikskólastjóri á Rauðhóli tók á móti nemendum og leiddi þá um þennan stærsta leikskóla borgarinnar þar sem dvelja að jafnaði um 200 börn. Hún lagði í kynningu sinni áherslu á hversu mikilvægt það væri fyrir starfsemi leikskólans að vera í nánu samstarfi við grunnskólann og að flæði væri á milli tveggja fyrstu skólastiganna.

Rauðhóll starfar í þremur húsum og skoðuðu háskólanemendur þau öll og hittu fyrir börn og starfsfólk. „Það er mikilvægt að taka vel á móti nemendum í leikskólafræðum,“ sagði Guðrún Sólveig. „Þetta er orðið að árlegum viðburði í Rauðhóli að kynna leikskólastarfið með þessum hætti. Sérhver nemandi í leikskólafræðum er mikilvægur og við ætlum ekki að liggja á liði okkar við að kynna hvað það er hægt að stunda metnaðarfullt fagstarf á fyrsta skólastiginu.“

Nemendur í leikskólafræðum við HÍ er óvenjumargir um þessar mundir, bæði í staðbundnu námi og fjarnámi. Margir nemendur stunda námið samhliða því að starfa í leikskóla og geta þannig nýtt hagnýta reynslu og öðlast á sama tíma fræðilega þekkingu. Nemendum í leikskólafræðum býðst nú launað starfsnám á lokaárinu og er það liður í aðgerðum stjórnvalda til að fjölga leikskólakennurum. 

Þessi vettvangsheimsókn er liður í námskeiðinu Leikskólinn sem menntastofnun í umsjón Ingibjargar Óskar Sigurðardóttur. Elín Guðrún Pálsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir verkefnisstjórar í Rauðhóli fræddu nemendur um einstaka þætti í leikskólastarfinu.