Samvinna lykilorð á vinnustofu um barnavernd

Velferð

""

Starfsfólk og fulltrúar frá ráðum og nefndum frá Reykjavíkurborg og stofnunum ríkisins auk hagsmunaaðila og þeirra sem notað hafa þjónustu barnaverndar hittust á vinnustofu á Fosshóteli í dag til að fara ofan í saumana á barnaverndarmálum í Reykjavík og opna umræðu um hvað betur má fara.

Miklar breytingar urðu á liðnu ári á Barnavernd Reykjavíkur en markmið borgarinnar er að vera í fararbroddi í umbótum á barnaverndarstarfi. 

Samstarfsnetið er nýjasta dæmið um breytt skipulag á þjónustu við börn hjá borginni.  Samstarfsnetið mun halda utan um öll stuðningsverkefni fyrir börn og fjölskyldur á vegum velferðarsviðs en um 1.100 börn og foreldrar njóta árlega stuðningsþjónustu sbr. persónuleg ráðgjöf, liðveisla, tilsjón, stuðningsfjölskyldur og foreldrafærninámskeið.

Á fyrri hluti vinnustofunnar voru flutt ávörp og reið Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri á vaðið með opnunarávarp sem hugsað var sem kveikja að umræðu. Hann sagði þar m.a. frá umbótum sem orðið hafa á Barnavernd sl. ár og verður starfsemin styrkt fyrir 90 milljónir á þessu ári auk þess sem nýtt skammtímavistheimili fyrir börn með þroska- og geðraskanir er í undirbúningi og einnig nýtt búsetuúrræði. Hann kallaði eftir samstarfi þvert á ríki og borg. Dagur lagði til að í vinnu við nýja framkvæmdaáætlun yrði yfirskrift nýrrar menntastefnu, Látum draumana rætast, höfð að leiðarljósi í allri þjónustu við börn.

Ásmundur Einar Daðason ráðherra félags- og barnamálaráðuneytisins sagði frá stefnumótun ríkisins í málefnum barna og tengsl við þjónustu borgarinnar. Að sögn Ásmundar hafa ekki verið gerðar eins miklar breytingar á málefnum barna í 25 ár og nú er stefnt að. Hann hvatti fundinn til að ,,hugsa út fyrir kassann“ og koma með tillögur að breytingum þvert á ráðuneyti því samstarf og samvinna væru lykill að velferð barna.

Emilía María Maidland sagði þátttakendum frá reynslu sinni sem fósturbarni og mikilvægi þess að hlusta á börn. Í máli hennar kom fram Barnavernd hafi verið hennar skjól.  Hún sagði að gripið hefði verið inn í hennar líf full seint og afskipti Barnverndar hefði átt að koma fyrr. Hún benti á nauðsyn þess að ræða við börnin um líðan og ástandið heima fyrir. Emilía lagði líka áherslu á samvinnu milli skóla, frístundamiðstöðva, Barnaverndar og allra þeirra sem koma að þjónustu við börn.

Halldór Þór Svavarsson sagði að lokum frá því hvernig er að vera foreldri sem fær þjónustu hjá barnavernd.  Hann sagði miklu skipta að fylgja foreldrum, sem Barnavernd hefur haft afskipti af, vel eftir í uppeldinu. Hann taldi líka mikilvægt að foreldrar gætu sótt stuðning til Barnaverndar áður en í óefni er komið og það þyrfti að fylgja fjölskyldum betur eftir.

Á seinni hluta vinnustofunnar var unnið að því að fá áþreifanlega hugmyndir og tillögur að aðgerðum í framkvæmdaáætlun í barnavernd Reykjavíkur. Stefnt er að því að ljúka vinnu við gerð framkvæmdaáætlunarinnar í maímánuði.