Samstarf um starfsnám í umhverfis- og auðlindafræði

Samgöngur Skipulagsmál

""

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar er einn af samstarfsaðilum um starfsnám fyrir meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

Markmið starfsnámsins er að efla tengsl við atvinnulífið, veita nemendum innsýn í starfsemi sem tengist fagsviðum námsins og gera þeim kleift að takast á við hagnýt úrlausnaefni. Markmiðið er enn fremur að tryggja nemendum þjálfun undir faglegri handleiðslu reyndra stjórnenda hjá frjálsum félagasamtökum, opinberum stofnunum og fyrirtækjum sem tengjast umhverfis- og auðlindafræði.

Námsleið í umhverfis- og auðlindafræði hefur verið í samstarfi við Landvernd um starfsþjálfun meistaranema frá árinu 2013 og eykur nú möguleika nemenda með fleiri samstarfssamningum. Nýju samningarnir eru gerðir að fyrirmynd samstarfsins við Landvernd. Í starfsþjálfun vinna nemar að einu veigamiklu verkefni, sem getur verið allt frá greiningu til stefnumótunar, og fá að auki innsýn í daglega starfsemi viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. 

Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs og Sveinn Agnarsson formaður námsstjórnar í umhverfis- og auðlindafræði, undirrituðu samningana. USK mun m.a. leggja fram tillögur að starfsþjálfunarverkefnum og vinnuaðstöðu.

Samstarfsaðilarnir um starfsnámið eru Orkustofnun, Orkuveita Reykjavíkur, Samtök iðnaðarins, Skipulagsstofnun, Sorpa og umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.

Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson/ Fulltrúar Háskóla Íslands og stofnana og fyrirtækja sem standa að starfsnáminu við undirritun samninganna á dögunum

Tengill

Samningur