Samráð um þjónustu við flóttafólk | Reykjavíkurborg

Samráð um þjónustu við flóttafólk

fimmtudagur, 24. maí 2018

Stofnanir, samtök og grasrótarsamtök sem starfa með og bjóða upp á þjónustu við flóttafólk og hælisleitendur komu saman á veglegu málþingi þar sem þau kynntu sín verkefni hvert fyrir öðru og skiptust á upplýsingum um það sem gert er í þjónustu við flóttafólk.

 • Ólíkir aðilar kynntu þjónustu við flóttafólk og hælisleitendur.
  Ólíkir aðilar kynntu þjónustu við flóttafólk og hælisleitendur.
 • Sigrún Erla Egilsdóttir, Verkefnastjóri RK og Úlfhildur Ólafsdóttir, Verkefnastjóri.
  Sigrún Erla Egilsdóttir, Verkefnastjóri RK og Úlfhildur Ólafsdóttir, Verkefnastjóri, sögðu frá starfi Rauða krossins.
 • Þverfaglegt samráð og samvinna um málefni flóttafólks.
  Þverfaglegt samráð og samvinna um málefni flóttafólks.
 • Anna Lára Steindal, Verkefnastjóri RK og Edda Ólafsdóttir, verkefnastjóri velferðarsviði.
  Anna Lára Steindal, Verkefnastjóri RK og Edda Ólafsdóttir, verkefnastjóri velferðarsviði, sáu um undirbúning málþingsins.

Málþingið var haldið í salarkynnum Reykjavíkurborgar í Borgartúni og var hugmyndin að efla samstarf allra þeirra sem koma að málefnum hælisleitenda og flóttafólks á höfuðborgarsvæðinu. Þátttakendur kynntu sína vinnu og skiptust á hugmyndum, jafnframt því að spegla sameiginlega fleti og möguleika á samstarfi.

Markmið málþingsins var að stefna saman lykilstarfsfólki og framkvæmdaaðilum verkefna til stuðnings flóttafólki með það að markmiði að fá yfirsýn yfir það sem gert er hjá ólíkum aðilum.

Kortleggja þarf verkefni og stuðning þannig að þeir sem starfa að málaflokknum hafi yfirsýn yfir þá þjónustu og þau verkefni sem verið er að vinna með flóttafólki á höfuðborgarsvæðinu. Með því að öðlast yfirsýn er mögulegt að styrkja samstarf ólíkra aðila um málefnið og starfið verður markvissara.

Safna á hnitmiðuðum upplýsingum um stuðning og verkefni í stuttan bækling sem verður þýddur á nokkur tungumál og verður flóttafólki aðgengilegur hjá öllum samstarfsaðilum. Það er til mikils að vinna að hafa heildarmynd yfir verkefnin til að hægt sé að miðla réttum upplýsingum til flóttafólks.

Þróa á leiðarvísi að samstarfsvettvangi sem önnur sveitarfélög og landshlutar geta nýtt sér við skipulagningu verkefna með flóttafólki um allt land.

Vinnumálastofnun, Rauði krossinn, Mannréttindaskrifstofa Íslands, sveitarfélög, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn og Andrými kynntu verkefni sín á þessum fyrsta samráðsvettvangi.

Málþinginu lauk með hraðstefnumótum ólíkra aðila sem vinna með flóttafólki og þar bauðst þeim að kynna frekar verkefni sín á í máli eða myndum.

Eitt er víst að nú er búið að koma á samvinnu og samráði meðal allra þeirra sem koma að þjónustunni.