Samningur um rekstur hinsegin félagsmiðstöðvar

Mannlíf Mannréttindi

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78 hafa undirritað nýja fræðslu- og þjónustusamninga sem kveða á um greiðslu borgarinnar til samtakanna sem varða rekstur og þjónustu samtakanna og um rekstur hinsegin félagmiðstöðvar.

Í samningunum er kveðið á um rekstur hinsegin félagsmiðstöðvar  í samstarfi við frístundamiðstöðina Tjörnina.  Þar mun fara fram reglubundin starfssemi fyrir ungmenni sem tekur mið af sérstöðu þeirra sem hinsegin og vinnur að því að styrkja og efla sjálfsmynd þeirra, en rannsóknir hafa sýnt fram á  að líðan hinsegin ungmenna er verri en þeirra ungmenna sem ekki eru hinsegin. Með sérstakri hinsegin félagsmiðstöð gefst hinsegin ungmennum tækifæri að tilheyra hópi þar sem hinseginleiki þeirra er viðmiðið en ekki frávik.

Samtökin '78 munu sinna fræðslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar, bæði til nemenda og starfsfólks, um stöðu samkynhneigðs, tvíkynhneigðs, pankynhneigðs, asexual, intersex og transgender fólks, nefnt hinsegin fólk. Einnig verður greitt til reksturs samtakanna, fræðslu og ráðgjafaþjónustu. Markmið með samningi um fræðslu í grunnskólum er að samtökin skipuleggi og framkvæmi fræðslufundi fyrir nemendur, kennara og aðra þá sem starfa hjá grunnskólum Reykjavíkurborgar. Þá sjá samtökin um skipulagða fræðslu fyrir starfsstéttir og áhugahópa sem og sérstaka fræðslu fyrir fagaðila hjá Reykjavíkurborg.

Tveir ráðgjafar munu starfa fyrir samtökin sem sinna stuðningsviðtölum við hinsegin fólk á öllum aldri og aðstandendur þess. Viðtölin fara fram í húsnæði þeirra. Auk þess munu starfa stuðningshópar fyrir hinsegin ungmenni.

Samkvæmt samningunum greiðir Reykjavíkurborg Samtökunum '78  8,7 milljónir á ári og er gildistími samninganna til ársins 2020.