Samningur um gistinætur neyðarskýla

Velferð

""

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur sent sveitarfélögum landsins bréf fyrir hönd Reykjavíkurborgar með ósk um samning um greiðslu gistináttagjalds í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg rekur gistiskýlið við Lindargötu en þar eru pláss fyrir 25-30 gesti. Einnig greiðir Reykjavíkurborg rekstur Konukots sem er rekið í samstarfi við Rauða krossinn en þar er pláss fyrir allt að 12 konur. Í undirbúningi er stofnun þriðja neyðarskýlisins fyrir unga vímuefnaneytendur en þar verður pláss fyrir 15 manns.

Í fyrra voru 58 manns með lögheimili fyrir utan Reykjavík sem gistu í alls 624 gistinætur í skýlunum. Þegar hafa Hafnarfjörður og Garðabær samþykkt að ganga til samninga við borgina um greiðslu gistináttagjaldsins. 

Alls gistu 301 í 13.934 gistinætur á árinu 2018. Karlar voru 195 og gistu 10.632 nætur en konur 106 og gistu 3.302 nætur.

Stýrihópur hefur verið að störfum um stefnumótun í málefnum heimilislausra og jaðarsettra hópa og er niðurstöðu hópsins að vænta í febrúar næstkomandi.