Samningur um að mæla sjálfbærni borgarinnar

Stjórnsýsla Fjármál

""

Reykjavíkurborg hefur skrifað undir samning um að innleiða staðalinn ISO 37120, um sjálfbærar borgir frá alþjóðlegu samtökunum World Council on City Data (WCCD).

Ávinningur verkefnisins er margvíslegur en við innleiðingu staðalsins verður Reykjavíkurborg  samanburðarhæf við hundrað aðrar borgir í heiminum. Með notkun staðalsins er svo hægt að auka lífsgæði og þjónustu við borgarbúa.

Borgin hefur þrjá mánuði til þess að safna upplýsingum og gögnum út frá hundrað mælikvörðum sem munu svo segja til um hvernig borgin getur bætt þjónustu sína. Niðurstöðurnar gagnast því þvert á borgarstarfsemina og munu gera borgarumhverfið betra fyrir íbúa sem og atvinnustarfsemi. Árið 2021 verða svo tveir staðlar til viðbótar innleiddir en þeir munu mæla hve snjallvæn borgin er og hvert þanþol, eða ´resilience´, hennar er.

Mælingar þessar eru skref til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna, sem samþykkt voru árið 2015 af 193 aðildarríkjum, og eru sameiginleg aðgerðaráætlun fyrir aukinni sjálfbærni. Líkt og með heimsmarkmiðin þá mælir stuðullinn ekki bara umhverfislega þætti heldur einnig efnahagslega og samfélagslega sjálfbærni borgarinnar.

Dr. Patricia McCarney, framkvæmdarstýra WCCD, lýsti yfir ánægju með ákvörðun Reykjavíkurborgar að slást í för með þeim borgum sem innleiða sjálfbærnistaðla. „Sú skuldbinding borgarstjóra Reykjavíkur að skapa sjálfbærara borgarkerfi með innleiðingu þessara þriggja staðla um vistvæna snjallborg gerir borgina að fyrirmyndarumsækjanda. Ég hlakka mikið til þess að vinna með Reykjavíkurborg að settu marki.“ 

Kópavogur hefur eitt sveitarfélaga hér á landi farið í þessa vegferð og nú leggur höfðuborgin af stað. Vonir standa til að sem flest sveitarfélög á landinu sækist eftir því nota ISO árangursmælingar svo allt landið geti unnið í sameiningu að sjálbærri þróun í samanburði við alþjóðasamfélagið.