Samningur um að efla Meet in Reykjavík

Menning og listir Ferðamál

""

Íslandsstofa mun verða framkvæmdaraðili markaðsverkefnisins Meet in Reykjavík samkvæmt nýjum samningi en markmið verkefnisins er að fjölga ráðstefnugestum sem koma til landsins.

Borgarráð hefur samþykkt að Íslandsstofa muni halda utan um markaðsverkefnið Meet in Reykjavík sem snýst um að laða ráðstefnugesti til landsins svo og að styrkja ímynd Reykjavíkur og Íslands sem eftirsóknarverðs áfangastaðar fyrir ráðstefnur, fundi, hvataferðir og alþjóðlega viðburði. Reykjavíkurborg, Íslandsstofa, Icelandair og Harpa standa að Meet in Reykjavík.

Markmiðið með samningnum er að efla Meet in Reykjavík til að fjölga ráðstefnugestum sem koma til höfuðborgarsvæðisins. Í ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar er stefnt að því að 15% ferðamanna sem heimsækja höfuðborgarsvæðið séu ráðstefnugestir. Slíkir gestir koma oftast til landsins utan háaannatíma í ferðaþjónustu, t.d. á haustin og veturnar, og þykja dýrmætir ferðamenn sem eyða hlutfallslega meiru en almennir gestir í heimsóknum til landsins.

Með samstarfi við Íslandsstofu er stefnt að hagræðingu í rekstri og að því að efla verkefnið sjálft.  Samningurinn var borinn upp fyrir aðildarfélaga Meet in Reykjavík á auka aðalfundi þann 8. september sl. og samþykktur. Eins var samningurinn lagður fyrir stjórn Íslandsstofu þann 9. september sl. og samþykktur.

Reykjavíkurborg, Icelandair og Íslandsstofa eru kjölfestuaðilar markaðsverkefnisins en Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús skuldbindur sig til að vera aðili að verkefninu til fimm ára.

Skipuð verður verkefnastjórn sjö einstaklinga og fer Reykjavíkurborg með formennsku fyrstu tvö árin.

Frá og með árinu 2021 skulu aðilar samningsins leggja verkefninu til 110 milljónir árlega til ársins 2025 með ákveðnum skilyrðum. Leggja Reykjavíkurborg og Íslandsstofa til 40 milljónir króna hvor, Icelandair 25 mkr. og Harpa fimm milljónir króna.