Samkeppni – deilihjólaleiga í Reykjavík

Samgöngur Fjármál

Teiknuð mynd af reiðhjólum

Reykjavíkurborg auglýsir eftir áhugasömum aðilum til að reka deilihjólaleigu í Reykjavík til tveggja ára.

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til þess að reka deilihjólaleigu í Reykjavík (e. public bike share).  Aðkoma borgarinnar verður fyrst og fremst fólgin í að skapa aðstöðu og leggja til land, en rekstraraðilum látið eftir að sjá um uppsetningu og allan rekstur. Framlag borgarinnar til verkefnisins verður að hámarki sem nemur fimm milljónum króna á ári. Áætlaður upphafstími þjónustusamningsins er á þessu ári og áætluð verklok samningsins tveimur árum síðar. 

Tilgangur deilihjólaleigu er að veita almennum íbúum höfuðborgarsvæðisins jafnt sem ferðamönnum tímabundinn aðgang að reiðhjóli fyrir ferðir sínar innan borgarmarkanna, og styðja þannig við markmið borgarinnar um vistvænar samgöngur.

Fyrirhugað er að í upphafi verði a.m.k. sex hjólastöðvar staðsettar í miðborg Reykjavíkur. Lögð er áhersla á að staðsetja hjólastöðvar nærri biðstöðvum almenningssamgangna og mikilvægum áfangastöðum og er gert ráð fyrir að staðsetning hjólastöðva sé ákveðin í samráði við Reykjavíkurborg. Umsóknaraðilum ber þó að hafa í huga að stefna Reykjavíkurborgar er að einnig opna tækifæri til þess síðar að deilihjólaleigur verði án hjólastöðva (e. free-floating bike sharing) og því möguleiki á að breyta fyrirkomulagi deilihjólaleigunnar í framtíðinni.

Ferli þátttöku í þessari samkeppni er sem hér segir:

  • Frá og með birtingu þessarar auglýsingar má sækja um þátttöku í samkeppni um rekstur á deilihjólaleigu í Reykjavík og fá afhent samkeppnisgögn.
  • Heimilt er að skila svari við samkeppninni hvenær sem er milli afhendingar gagna og skilafrestsins, sem er fimmtudaginn 11. júlí 2019 kl. 12:00.
  • Fyrirspurn um nánari upplýsingar um umsókn og afhendingu samkeppnisgagna skal sent með tölvupósti á netfangið utbod@reykjavik.is merkt „Samkeppni – Deilihjólaleiga í Reykjavík“.

Stefnt er að því að samningaviðræður hefjist í byrjun júlí 2019.