Samið um rekstur hjúkrunarrýma og dagdvalar við Sléttuveg

Velferð

""

Reykjavíkurborg og Sjómannadagsráð, eigandi Hrafnistu, undirrituðu í dag samning um rekstur hjúkrunarrýma og dagdvalar við Sléttuveg í Reykjavík. Áður hafði borgin samið við Velferðarráðuneytið um byggingu hjúkrunarheimilisins og leitað í kjölfarið til Sjómannadagsráð og Hrafnistu um að hafa umsjón með framkvæmdinni fyrir sína hönd.

Reykjavíkurborg felur Hrafnistu rekstur á 99 hjúkrunarrýmum á fimm hæðum við Sléttuveg í Fossvogi. Hrafnista skuldbindur sig til að reka heimilið á sem hagkvæmastan hátt, en þó alltaf með markmið Hrafnistu í huga um andlega, líkamlega og félagslega vellíðan íbúa. Einnig verða gildi og stefna Reykjavíkurborgar í þjónustu við eldri borgara og mannréttindastefna Reykjavíkur höfð að leiðarljósi.

Samhliða hjúkrunarheimilinu reisir Sjómannadagsráð þjónustumiðstöð sem sambyggð verður hjúkrunarheimilinu. Í miðstöðinni mun Hrafnista starfrækja 30 dagdvalarrými fyrir Reykjavíkurborg auk þess verður þar ýmis þjónusta sem nýtist íbúum á svæðinu og íbúum hjúkrunarheimilisins, svo sem hárgreiðslustofa, fótsnyrtistofa, kaffihús, samkomusalir, sjúkraþjálfun og líkamsrækt.

Á nýju hjúkrunarheimli á Sléttuvegi, sem verður tilbúið seinni hluta næsta árs, verður áhersla lögð á sjálfsákvörðunarrétt og þátttöku íbúa. Starfsfólk og íbúar vinna saman að því að skapa heimilislegt, hlýlegt og virkt samfélag.