Samgöngutalning við Hlemmtorg

Samgöngur Skipulagsmál

""

Fleiri en 30 þúsund manns fara gangandi, hjólandi eða akandi um Hlemmtorg dag hvern.

Gert er ráð fyrir að Hlemmtorg verði líflegt og mikilvægt borgarrými í miðborg Reykjavíkur til framtíðar. Tillögurnar sem voru valdar í vor, í kjölfar hugmyndasamkeppni um framtíð og þróun Hlemmtorgs fanga anda þess og viðhalda um leið fjölbreyttum samgönguleiðum og mannlífi. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar lét af þessu tilefni framkvæma samgöngutalningu við Hlemmtorg núna í sumar.

Talningar fóru fram valda daga í júní, júlí og ágúst, einn dag í hverjum mánuði. Talið var fjórum sinnum yfir daginn, tvo tíma í senn, frá 8 að morgni til 9 að kvöldi. Einungis var talin umferð inn á torgið til að koma í veg fyrir tvítalningu.

Niðurstöður talninga gefa sterklega til kynna að daglega á milli klukkan 8 og 21 gangi allt að 23 þúsund vegfarendur inn á Hlemmtorg, 1.400 manns hjóli og 7 þúsund bílar aki. Samtals eru því um fleiri en 30 þúsund manns sem fara gangandi, hjólandi eða akandi um Hlemmtorg dag hvern. Nefna má, til að setja tölurnar í samhengi, að 18 þúsund manns búa í Grafarvogi og um 26 þúsund á Suðurlandi.

Þessar talningar verða notaðar við endurhönnun svæðisins og gerð deiliskipulags sem er að fara í gang. En tillögur arkitektastofanna Mandaworks og DLD voru valdar til áframhaldandi þróunarvinnu við Hlemm fyrir þá vinnu.

Vinna við nýtt deiliskipulag hefst í haust og hönnunarvinna þá í framhaldinu. Talningarverkefnið við Hlemm verður jafnframt endurtekið núna í haust. Sambærileg talning verður gerð aftur eftir breytingu torgsins m.a. til að bera saman við eldri niðurstöður. 

Tenglar:

Frétt um hugmyndasamkeppni