Samgöngubætur í norðanverðum Grafarvogi

Skóli og frístund Umhverfi

""

Framkvæmdir við samgöngubætur í norðanverðum Grafarvogi samhliða breytingum á skólahaldi í hverfinu fara af stað í þessari viku. Gangbrautir verða hækkaðar upp, bætt verður við þrengingum og hraðahindrunum eftir því sem við á og sett upp betri lýsing og fleiri skilti.

Öll verkefnin miða að því að bæta öryggi gangandi vegfarenda og þá sérstaklega skólabarna. Byrjað verður við göngustíginn við Strandveg og gönguþverunina þar sem og breytingar við hringtorgið. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdirnar er 90 milljónir króna. Núgildandi áætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdum ljúki um mánaðamótin september/október en áætlun er endurskoðuð eftir framvindu verksins. Fram að þeim tíma verður gangbrautarvarsla á völdum stöðum og er útfærsla hennar í höndum skólastjóra.

Staðsetningar valdar í samráði við foreldra og skóla

Samráð var haft við íbúa um val  á þeim stöðum þar sem úrbóta var þörf til að tryggja enn betur umferðaröryggi skólabarna.  Bent var á staðina á vinnufundi sem haldinn var í lok síðasta árs með fulltrúum skóla, nemenda, foreldra og frístundastarfs. Sérfræðingar Reykjavíkurborgar í umferðaröryggismálum mátu í kjölfarið hvaða aðgerðir væru heppilegastar á hverjum stað í ljósi allra ábendinga, að teknu tilliti til umferðarmagns og hraða vélknúinnar umferðar.  

Framkvæmdirnar framundan

Gönguþveranir sem verða merktar sem gangbrautir eru:

  • Yfir Strandveg neðan Breiðuvíkur móts við Garðsstaði.
  • Yfir Breiðuvík móts við hús nr. 27-29 og nr. 24.
  • Yfir Breiðuvík á gatnamótum við Hamravík.
  • Yfir Hamravík á gatnamótum við Mosaveg.
  • Yfir Víkurveg við gatnamót við Mosaveg.
  • Yfir Mosaveg við gatnamót við Víkurveg.
  • Yfir Mosaveg móts við Gautavík 17.
  • Yfir Mosaveg vestan Skólavegar.
  • Yfir Vættaborgir móts við hús nr. 32.
  • Yfir Móaveg móts við hús nr. 10 .

Hámarkshraða verður breytt og bætt við skiltum, verður 30 km/klst í stað 50 km/klst:

  • Á Mosavegi frá Víkurvegi austur fyrir Skólaveg.
  • Á Móavegi frá Vættaborgum austur fyrir Dísaborgir.

Undirgöng eða brú ekki betri kostur

Skoðað var hvernig undirgöng og göngubrú myndu koma út yfir Strandveg. Hvort tveggja þótti liggja illa í landinu m.t.t. hæðarlegu og vera of kostnaðarsamt miðað við ávinning m.t.t. öryggis og aðgengis. Við slíkar aðstæður aukast líkurnar á að vegfarendur skjótist yfir veginn frekar en að ganga óhentuga leið yfir brú eða í undirgöng. Það á sérstaklega við þegar umferðin á veginum er eins lítil og á þessum stað, eða innan við tvö þúsund ökutæki á sólarhring.

Þess í stað verður farið í  aðgerðir sem stuðla að því að ökumenn sjái, virði og hægi á sér við gönguþverun yfir Strandaveg . Þarna verður sett upp gangbraut, götulýsing bætt, miðeyjan lengd, sett hraðavaraskilti báðum megin og koddar (hraðahindranir) færðir til þannig að þeir virki sem best til að auka líkur á að ökumenn stöðvi við gangbrautina.

Gangbrautarljós og hægari umferð við hringtorg

Til að bæta umferðaröryggi yngstu skólabarna Staðahverfis sem sækja nú Engjaskóla verður hámarkshraði á Mosavegi lækkaður í 30 km/klst , sett upp gangbrautarljós og farið í aðgerðir til að draga úr hraða ökumanna við hringtorgið á Víkurvegi. Til viðbótar við ljósin er ætlunin að lengja miðeyju og bæta götulýsingu á svæðinu milli gangbrautarljósanna og Hamravíkur. Við hringtorgið verða akstursaðkomur þrengdar til að draga úr hraða ökutækja, gangbrautir lagðar, götulýsing bætt og settar upp hraðahindranir.

Skólaakstur

Boðið upp á skólaakstur úr Staðahverfi bæði í Engjaskóla og Víkurskóla. Skólabíllinn mun stoppa á biðstöðvum Strætó sem nú kallast Barðastaðir, Bakkastaðir/Barðastaðir og Kelduskóli/Korpa. Eldri nemendum verður boðið upp á strætókort ef þeir velja það frekar en skólaakstur. Breytingar sem miða að því að strætó nýtist nemendum á leið til og frá skóla eru í undirbúningi. Slíkar breytingar gætu tekið gildi um næstu áramót eða í síðasta lagi næsta sumar.