Samfélagsleg verkefni fá aðstöðu í Arnarbakka og Völvufelli

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Gæða á hverfiskjarnana í Arnarbakka og við  Völvufell nýju lífi og flýta fyrir uppbyggingu þeirra. Reykjavíkurborg festi á síðasta ári kaup á fasteignum með þetta að markmiði og nú er unnið að breytingum á deiliskipulagi.

Meðan verkefnið er í skipulagsferli vill borgin nýta húsnæðið sem hún á til uppbyggjandi samfélagslegra verkefna og var í vetur auglýst eftir samstarfsaðilum og leigjendum. Gengið hefur verið frá leigusamningum og voru þeir kynntir í borgarráði nýlega.

Karlar í skúrum og Hjólakraftur í Arnarbakka

Fimm nýir aðilar flytja í húsnæðið í Arnarbakka 2, 4 og 6 eftir því sem það losnar:

  • Karlar í skúrum - Rauði kross Íslands
  • SmiRey - smíðastofa fyrir einhverfa karla - Velferðarsvið Reykjavíkurborgar
  • Verkstæði og kennslurými - Áhugahópur kennara og handverksmanna
  • Hjólafærni - Hjólakraftur á Íslandi
  • Kistan, upptökuver -  Óli Gneisti Sóleyjarson

Starfsemi sem er nú þegar í húsnæðinu og verður áfram er Hársnyrtistofan Arnarbakka, Sveinsbakarí og Matvöruverslunin Iceland.

Stelpur Rokka! og sjálfbær ræktun í Völvufelli.

Nýlistasafnið, sem er nú með safnageymslur og vinnurými og Listaháskóli Íslands, sem er með sýningarsal í Völvufelli 13-21 fá nýja nágranna sem eru:

  • Stelpur Rokka! - tónlistarmiðstöð
  • Seljagarður 109, sjálfbær ræktun – matjurtaræktun í borgarumhverfi

Umbætur í umhverfinu

Í borgarráði var samþykkt að leigjendur sem engar tekjur hafa í sinni starfsemi fái húsnæði til leigu án endurgjalds en þeir sem hafa einhverjar tekjur greiði kr.1.000 fyrir hvern fermetra. Leigusamningum verður hægt að segja upp með 1-3 mánaða fyrirvara.

Bæta á gæði umhverfisins á báðum svæðum og verða húsin lagfærð í sumar til bráðabirgða. Ekki er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum við húsnæðið, en nokkrir leigutakar gera ráð fyrir að standsetja sjálfir sitt leigurými.

Tengt efni: