Saman í heimsókn í félagsmiðstöðina | Reykjavíkurborg

Saman í heimsókn í félagsmiðstöðina

mánudagur, 12. nóvember 2018

Miðvikudaginn 14. nóvember verður hinn árlegi félagsmiðstöðvadagur haldinn hátíðlegur í Reykjavík. Markmið dagsins er að vekja athygli á því uppbyggilega frístundastarfi sem þar fer fram  fyrir börn og unglinga og bjóða gestum að kynnast því með eigin augum. Yfirskrift dagsins að þessu sinni er SAMVERA.

  • Hér sýna krakkar, í Pýgyn í Grafarvogi, gestum dansatriði.
    Hér sýna krakkar, í Pýgyn í Grafarvogi, gestum dansatriði.
  • Krakkar í Hólmaseli stíga á svið.
    Krakkar í Hólmaseli stíga á svið.

Allar félagsmiðstöðvar í Reykjavík bjóða upp á dagskrá í tilefni dagsins en þar má bæði kynna sér hefðbundin viðfangsefni í starfi félagsmiðstöðva og sérstakar uppákomur sem tileinkaðar eru deginum. Í Holtinu í Norðlingaholti verður gestum boðið að taka þátt í slímgerð, fjölskyldu-hjartslætti, spreyta sig á spilum í spilahorninu og hlusta á ljúfa tóna þegar ungmenni stíga á svið. Unglinga- og nemendaráð í Púgyn í Grafarvogi kynnir starf félagsmiðstöðvarinnar og hægt er að taka þátt í smiðjum þar sem farið verður í blindrabolta, brjóstsykursgerð og áskorunina Minute to win it. Í Þróttheimum í Laugardal munu gestir njóta hæfileika unglinga með því að horfa á Skrekksatriði Langholtsskóla á stórum skjá og hægt verður að fara í billjard, borðtennis og ýmis borðspil.

Það verður meðal annars hægt að skella sér í bingó í Hundraðogellefu í Breiðholti og gæða sér á ljúffengum veitingum. Í Frosta í Vesturbæ verður kynning á klúbbum, dagskrárgerð og Tikk-kerfinu,  farið í spurningaleikinn Kahoot og hægt að kíkja í föndurhornið. Skálaskreytingar, tie dye og öll afþreying sem Hellirinn í Breiðholti hefur upp á að bjóða stendur gestum sem þangað koma til boða.

Yfirlit yfir félagsmiðstöðvar í Reykjavík er að finna á heimasíðu skóla- og frístundasviðs. Dagskrá dagsins og opnunartíma allra félagsmiðstöðva í Reykjavík og heimilisföng má finna á fésbókarsíðum þeirra og heimasíðum.
 

Félagsmiðstöðvadagurinn er haldinn á öllu landinu fyrir tilstilli SAMFÉS, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, en dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2005.

Börn, unglingar og frístundaráðgjafar í félagsmiðstöðvum Reykjavíkur bjóða ykkur öll velkomin í heimsókn.