Safnaðu söfnum í Reykjavík

""

Átak til að kynna hið fjölbreytta og metnaðarfulla starf safna Reykjavíkurborgar hefst í vikunni, undir slagorðinu: Safnaðu.

Leiðarljósið er að hvetja enn fleiri til að njóta þess sem söfn borgarinnar hafa að bjóða allan ársins hring. Er það í takt við menningarstefnu borgarinnar sem segir að mikilvægt sé að leitast sífellt við að breikka þann hóp sem sækir söfn og annað menningarstarf í borginni.

Fjölbreytnin höfð að leiðarljósi

Reykjavíkurborg á og rekur Listasafn Reykjavíkur, Borgarsögusafn og Borgarbókasafn og eru þau með starfsemi víðsvegar um borgina. Þar er allt kapp lagt á að miðla sögu, bókakosti, myndlist og því sem hæst ber í listum og menningu hverju sinni. Tugir sýninga eru opnaðar á ári hverju og haldnir eru yfir fjögur hundruð viðburðir, sem ætlað er að höfða til ólíkra hópa. Umsagnir gesta um söfn borgarinnar eru afar jákvæðar og kannanir staðfesta enn frekar ánægju þeirra. Í þjónustukönnunum Reykjavíkurborgar raðast söfnin í efstu sætin þegar kemur að ánægju Reykvíkinga með þjónustu borgarinnar.

Safnaðu viðburðaríkum tíma í Reykjavík

Markaðsátakið mun birtast landsmönnum í auglýsingaplássi fjölmiðla á næstu vikum og mánuðum, á götuskiltum og á samfélagsmiðlum Reykjavíkurborgar. Sett hefur verið upp vefsíðan, safnadu.is, þar sem nálgast má upplýsingar um alla helstu menningarviðburði á vegum Reykjavíkurborgar.

Undir hatti Listasafns Reykjavíkur er Hafnarhúsið í miðborginni, Kjarvalsstaðir og Ásmundarsafn, undir hatti Borgarsögusafns er Landnámssýningin, Aðalstræti 10, Árbæjarsafn, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Viðey, og Borgarbókasafnið er með útibú á sex stöðum í borginni.

Auk þessa heldur Reykjavíkurborg úti fjölmörgu öðru menningarstarfi og má nefna viðburði á borð við Safnanótt, Vetrarhátíð, Barnamenningarhátíð, Menningarnótt, tendrun Friðarsúlunnar í Viðey og aðventuhátíð. Þá má nefna Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Tónlistarborgina Reykjavík, auk þess sem stutt er við rekstur Tjarnarbíós, Bíó Paradísar, Borgarleikhússins, Dansverkstæðisins á Hjarðarhaga og Hörpu, svo fátt eitt sé nefnt og útdeilt árlega úr menningarsjóði til margvíslegra annarra menningarviðburða og hátíða í borginni.

Hagstæðasta leiðin til að njóta starfsemi safna borgarinnar er í gegnum Menningarkort Reykjavíkur, en frítt er fyrir börn yngri en 18 ára og öryrkja. Þeir sem eru 67 ára og eldri njóta um 70% afsláttar af Menningarkorti Reykjavíkur og er endurnýjun án endurgjalds.

Vefsíða safna og viðburða

Facebook síða Safnaðu