Rýmri reglur um sumarleyfi leikskólabarna

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt að fækka orlofsdögum sem barn þarf að taka í sumar frá leikskóla vegna Covid-19. Styttra orlof barna þýðir einnig að til verða fleiri sumarstörf í Reykjavík.

Foreldrar og forráðamenn geta þá sótt um að barn þeirra taki færri en 20 daga í sumarleyfi í þeim tilvikum þegar foreldrar hafa þurft að skerða sumarleyfi sitt vegna skerðingar á leikskólastarfi í Covid-19 faraldrinum. Hægt verður að sækja um fækkun sumarleyfisdaga frá 15. til 25. maí næstkomandi. Um er að ræða 5-10 daga fækkun hjá barni í samræmi við töku orlofs á tímabilinu 16. mars til 30. apríl þegar Covid-19 raskaði samfélaginu mest.

Horft verður til aðstæðna hverju sinni og orlofsstöðu foreldra og forráðamanna. Ef umsókn verður samþykkt fær barnið dvöl á opnum leikskóla í sínum borgarhluta. Greiða þarf samkvæmt gjaldskrá fyrir þann tíma sem barnið fer í sumarleikskóla.

Tillagan um tilslökun á reglunni um lágmark tuttugu daga sumarleyfi leikskólabarna þýðir að full starfsemi gæti orðið í sex opnum leikskólum í allt sumar. Það þýðir að ráða þarf í fleiri sumarstörf hjá borginni og verða námsmenn sérstaklega hafðir í huga í þeim ráðningum.

Nánari upplýsingar um umsóknarferlið liggja fyrir á morgun, fimmtudag, þegar tillagan hefur fengið endalega meðferð og afgreiðslu í borgarráði.

Umsókn um fækkun sumarleyfisdaga, íslensku, pólsku og ensku.