Rútustoppistöðvar draga úr akstri um miðborgina

Umhverfi Skipulagsmál

""
Verið er að merkja tólf rútustoppistöðvar í miðborginni og er það gert til að auðvelda ferðamönnum að komast í og úr hópferðabílum nú þegar takmarkanir hafa verið gerðar á akstri þeirra um íbúabyggð og þröngar götur. 
 
Markmiðið með nýju stæðunum er að vernda íbúabyggð fyrir óþarfa umferð en um leið auka þjónustu við rútufyrirtækin og gististaði innan þeirra svæða sem takmarkanir eru á akstri stórra bíla. Rútustæðin eru merkt með númerum og heitum til að draga úr mögulegum misskilningi. Staðsetningar stæðanna má sjá á meðfylgjandi korti og þær hafa einnig verið settar í Borgarvefsjána og gera má ráð fyrir að með tíð og tíma rati inn á flest ferðamannakort.  
 
Merkingarnar eru á staurum við stæðin og er nýbúið að ganga frá þeim eins og áður segir. „Við erum að skoða í samráði við hagsmunaaðila hvort þörf sé á fleiri stæðum og þá hvar,“ segir Hildur Gunnlaugsdóttir verkefnisstjóri borgarhönnunar.
 
Rútustæðin í miðborginni eru komin upp á þessum stöðum:
  1. Tjörnin
  2. Ráðhús
  3. Ingólfstorg
  4. Vesturgata
  5. Harpa
  6. Safnahús
  7. Kvosin
  8. Traðarkot
  9. Hnitbjörg
  10. Hallgrímskirkja
  11. Hlemmur
  12. Höfðatorg
 
Rútustæðin verða gjaldskyld en unnið er að tillögum að slíku í samráði við hagsmunaaðila og verður ferðaþjónustuaðilum gefið tækifæri á að venjast notkun stæðanna áður en gjaldskyldan hefst.