Rúmlega átta milljarða jákvæður rekstur | Reykjavíkurborg

Rúmlega átta milljarða jákvæður rekstur

fimmtudagur, 29. nóvember 2018

A-hluti Reykjavíkurborgar var rekinn með ríflega átta milljarða jákvæðri niðurstöðu fyrstu níu mánuði þessa árs samkvæmt árshlutareikningi sem kynntur var í borgarráði í morgun.

  • Úr Miðborginni
    Mikil uppbygging hefur átt sér stað í miðborg Reykjavíkur og segir borgarstjóri eitt mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar í gangi.

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar - september 2018 var afgreiddur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 29. nóvember.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 8.166. Þessi góða niðurstaða skýrist einkum af hærri tekjum af sölu byggingarréttar, sem var 3.099 mkr umfram áætlun. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir uppgjörið sýna sterkan rekstur borgarsjóðs.

„Níu mánaða uppgjörið sýnir einfaldlega góðan árangur og ábyrga fjármálastjórn. Þessu mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar fylgja einnig umtalsverðar tekjur sem er jákvætt fyrir rekstur borgarinnar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.   

 Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var jákvæð um 15.243 mkr.

Heildareignir samstæðunnar námu í lok september 619.908 mkr, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 315.500 mkr og eigið fé var 304.409 mkr en þar af var hlutdeild meðeigenda 16.270 mkr.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 49,1% en var 49,0% um síðustu áramót.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru:  Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf.

Tilkynning til Kauphallar