Reykvíkingar með minnsta magn úrgangs á höfuðborgarsvæðinu

Sorphirða

Hvað er í ruslinu? Sorpa kannaði það og hefur birt niðurstöður húsasorpsrannsóknar 2021.
Fólk að störfum við húsasorpsrannsókn Sorpu.

Sorpmagn á íbúa dregst saman á milli ára en Reykvíkingar skila af sér minnstu magni úrgangs á höfuðborgarsvæðinu, eða 129,9 kg á íbúa en Garðbæingar mestu, 155 kg á íbúa. Þetta kemur fram í rannsókn Sorpu á húsasorpi fyrir árið 2021 en með húsasorpi er átt við þann úrgang sem settur er í gráu tunnuna. Lífrænn úrgangur vegur þyngst í húsasorpinu og plast kemur þar á eftir. Niðurstöður húsasorpsrannsóknarinnar voru kynntar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í morgun.

Magn af sorpi, grófum úrgangi og blönduðum úrgangi, hefur aldrei verið minna á hvern íbúa. Meðaltalið í öllum sex sveitarfélögunum á svæðinu er 136,5 kg á íbúa.  Fréttirnar eru þó ekki bara jákvæðar því plast í ruslinu eykst um 2 kg á íbúa og einnig var meira magn af raftækjum í tunnunum.

Mest af lífrænum úrgangi og plasti

En hvað er í ruslinu? Áhugavert er að skoða samsetningu heimilissorps á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðurnar sjást á meðfylgjandi mynd en þar kemur fram að eldhúsúrgangur og annað lífrænt er 67,7 kg á mann, plast 22,3 kg á mann, pappír og pappi 13,7 kg á mann og gler og steinefni 8,5 kg á mann. Næstu flokkar eru undir 5 kg á íbúa, klæði og skór, málmar og spilliefni og raftæki.

Graf sem sýnir sorpflokkun.

Athygli vekur að alla ofantalda efnisflokka verður skylda að flokka með breyttri löggjöf sem tekur gildi 1. janúar 2023. Það sem eftir stendur samkvæmt rannsókninni er annað flokkanlegt 2,4 kg á mann og bleyjur og annað óflokkanlegt sem telst vera 11,2 kg á mann.

Samkvæmt niðurstöðunum var mikið magn af vel endurvinnanlegum umbúðum úr plasti í heimilissorpinu. Þess má líka geta að í flokknum gler og steinefni er fyrst og fremst um að ræða glerkrukkur sem rötuðu í ruslið. Það er því vel hægt að gera betur.

Samræmd sorphirða á höfuðborgarsvæðinu

Eins og áður segir taka ný lög um söfnun úrgangs við heimili gildi um næstu áramót. Sorphirða verður samræmd á höfuðborgarsvæðinu og verður lífrænum eldhúsúrgangi safnað sérstaklega. Í nýja sorphirðukerfinu verður fjórum úrgangsflokkum safnað við öll heimili. Flokkarnir eru lífrænn eldhúsúrgangur, pappír og plastumbúðir auk blandaðs heimilissorps.

Grenndarstöðvar verða áfram mikilvægur þáttur í endurvinnslu en þar er nú þegar á mörgum hverjum hægt að flokka gler og málma til viðbótar við þessa fjóra flokka.