Reykvíkingar jákvæðir gagnvart ferðamönnum | Reykjavíkurborg

Reykvíkingar jákvæðir gagnvart ferðamönnum

fimmtudagur, 6. september 2018

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru almennt jákvæðir gagnvart ferðamönnum og í Reykjavík eru þeir sem búa í Grafarholti, Laugardal, í Hlíðum, við Kringlu og í miðborginni hvað jákvæðastir. Um 74% svarenda sögðust mjög eða fremur jákvæð gagnvart ferðamönnum.

  • Á Austurvelli
    Á Austurvelli

Þetta kemur fram í könnun sem Maskína hefur gert fyrir Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar. Könnunin er nú gerð í fjórða sinn og var lögð fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu dagana 1. júní til 2. júlí 2018.

Í könnuninni er kannað viðhorf íbúa höfuðborgarsvæðisins til ferðaþjónustu og ferðamanna.  Frá árinu 2015, þegar könnunin var fyrst gerð, hefur viðhorf til ferðamanna ávallt verið jákvætt. Örlítið hefur dregið úr ánægjunni á milli ára þar til nú, er hún stendur í stað eða eykst á einstökum mælikvörðum. Á þessu fjögurra ára tímabili hefur ferðamönnum til borgarinnar hins vegar fjölgað umtalsvert.

Alls staðar á höfuðborgarsvæðinu eru jákvæðar hliðar ferðaþjónustu taldar vega þyngra en neikvæðar hliðar hennar. Er það þó misjafnt eftir svæðum og í miðborginni eru tæp 61% íbúa jákvæð gagnvart ferðaþjónustunni, samanborið við tæplega 44% íbúa Mosfellsbæjar, svo dæmi sé tekið.

Höfuðborgarbúar telja jafnframt að framboð veitingastaða, kaffihúsa, menningar og afþreyingar hafi aukist með auknum fjölda ferðamanna. Þá segjast langflestir svarenda aldrei eða sjaldan verða fyrir ónæði frá ferðamönnum við heimili sitt, svo sem vegna heimagistingar, þótt íbúar miðborgarinnar kvarti einna helst undan því.

Ferðamannakönnun Maskínu 2018