Reykjavíkurleikarnir settir í tólfta sinn

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, setti Reykjavíkurleikana í dag á blaðamannafundi sem haldinn var í Laugardalshöll.  Þetta er í tólfta sinn sem Reykjavíkurleikarnir, eða Reykjavik International Games, eru haldnir. Næstu tvær helgar verður keppt í 18 íþróttagreinum.  

Þetta er eitt stærsta alþjóðlega mót sem haldið er í Reykjavík og eru keppendur á mótinu um 2500 alls. Keppnisdagskráin skiptist niður á tvær helgar 24.-27. janúar og 30. janúar-3. febrúar. Flest besta íþróttafólk landsins tekur þátt í mótinu og á sjöunda hundrað alþjóðlegir keppendur. 

Keppnin fer að mestu fram í Laugardalnum en einnig í Egilshöll, á Skólavörðustíg og víðar.  Íþróttagreinarnar sem keppt er í eru mjög fjölbreyttar, og verður meðal annars í fyrsta sinn efnt til keppni í rafíþróttum.  Nú um helgina munu bestu lið landsins í Fortnite, Copunter Strike og League of Legends keppa í fyrsta sinn um titil rafíþróttameistara Reykjavíkurleikanna og öðlast þar með keppnisrétt á Norðurlandamótið í Dreamhack sem haldið verður í febrúar.

Í tengslum við Reykjavíkurleikana verður einnig efnt til alþjóðlegrar ráðstefnu sem ber yfirskriftina Eru íþróttir leikvangur ofbeldis?  Ráðstefnan er haldin í samvinnu Reykjavíkurborgar og ÍBR ásamt ÍSÍ, UMFÍ, HR og menntamálaráðuneyti og verður í húsnæði Háskólans í Reykjavík miðvikudaginn 30. janúar.  Vinnustofur um sama málefni verða svo fimmtudaginn 31. janúar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.   

 Dag­skrá Reykjavíkurleik­anna