Reykjavíkurleikarnir settir

Mannlíf Íþróttir og útivist

""

Reykjavíkurleikarnir eru árleg íþróttahátíð sem fer fram í 13.sinn dagana 23.janúar til 2.febrúar næstkomandi.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, setti Reykjavíkurleikana í Laugardalshöll í dag. Gústaf Adolf Hjaltason, forseti undirbúningsnefndar leikanna, tók einnig til máls, fór yfir dagskrána sem framundan er og nýjungarnar í ár. Að setningarathöfn lokinni fengu viðstaddir að prófa pílukast og kynna sér klifur og Enduro hjólreiðar sem eru nýjar greinar á leikunum í ár. Einnig var hægt að reyna við heimsmet Júlíans Jóhanns í réttstöðulyftu. Aðrar nýjar greinar í ár eru crossfit, akstursíþróttir og þríþraut.

Í ár fara Reykjavíkurleikarnir fram í 13.sinn og hafa keppnisgreinarnar aldrei verið fleiri en nú eða 23 talsins. Reiknað er með þátttöku hátt í 1000 erlendra gesta frá meira en 40 mismunandi löndum. Öll Norðurlöndin taka þátt og mörg lönd í Evrópu en einnig er von á keppendum sem koma lengra að eins og frá Indónesíu, Jamaíka og Nýja Sjálandi.

Keppnin á Reykjavíkurleikunum skiptist niður á tvær keppnishelgar og verður keppt í 12 greinum núna um helgina og 12 greinum um næstu helgi. Dagskrá má finna á vef leikanna rig.is.

Sú nýjung verður á Reykjavíkurleikunum í ár að boðið verður uppá svokallað “Fun Park” í anddyri Laugardalshallar þar sem gestir og gangandi geta fengið að reyna fyrir sér í ýmsum íþróttagreinum. Einnig verður myndabás og fleira skemmtilegt í gangi. Fun Park verður opið klukkan 11:30-15:00 laugardag og sunnudag báðar helgarnar.

Tveir viðburðir eru á dagskrá leikanna í dag, ráðstefna og badminton. Ráðstefna um jafnrétti barna og unglinga í íþróttum fór fram í Laugardalshöll klukkan 14-16 í dag. Fullbókað var á ráðstefnuna en sýnt var beint á vefnum svo allir áhugasamir gætu fylgst með. Badmintonkeppni Reykjavíkurleikanna hófst í morgun klukkan 9:00 í TBR húsunum við Gnoðarvog og stendur alla helgina. Keppendur í badminton eru rúmlega 150 talsins þar af 114 erlendir af 32 mismunandi þjóðernum. Leikjadagskrá má finna hér.