Reykjavíkurborg tekur þátt í UTmessunni í Hörpu | Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg tekur þátt í UTmessunni í Hörpu

fimmtudagur, 1. febrúar 2018

UTmessan verður haldin í Hörpu helgina 2.- 3. febrúar en um er að ræða einn stærsta viðburð ársins í tölvugeiranum.

  • Framtíðarborgin
    Framtíðarborgin

UTMessan hefur verið haldin árlega frá árinu 2011 og er tilgangurinn að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi. Á UTmessuna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst.  

Reykjavíkurborg verður með glæsilegan bás sem er unninn í samstarfi við auglýsingastofuna Jökulá. Jökulá hefur meðal annars teiknað upp framtíðar Reykjavík og búið til tölvuleik þar sem gestir geta flakkað um borgina og skoðað alls konar nýjungar sem eru á döfinni hjá borginni.

Markmið Reykjavíkurborgar á UTmessunni er að sýna fólki fram á að hjá Reykjavíkurborg er mikið af spennandi tækifærum og verkefnum, er lúta að snjallvæðingu og tækniframförum, sem hafa það að markmiði að einfalda þjónustuferla og færa þjónustuna nær borgarbúum. Notendamiðuð hönnun er leiðarljós snjallteymis borgarinnar og er UTmessan kjörinn vettvangur til að mynda samband við borgarbúa sem hafa áhuga á snjöllum lausnum og framtíð borgarinnar.

Laugardaginn 3. febrúar er frítt inn á UTMessuna og  gefst þá einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytileika upplýsingatækninnar.