Reykjavíkurborg styrkir Tónlistarfélag Árbæjar og heimsókn í Breiðholtslaug

Menning og listir Mannlíf

Krakkar að leik á blíðviðrisdegi á bakka Breiðholtslaugar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri undirritaði í dag samning um fjárstuðning til Tónlistarfélags Árbæjar og kom einnig við í Breiðholtslaug þar sem hann skoðaði breytingar sem hafa verið gerðar á sundaðstöðunni undanfarna viku.

Meginmarkmið Tónlistarfélagsins er að vekja áhuga, hvetja og efla ungt fólk til iðkunar tónlistar, sjálfum sér og öðrum til ánægju og aukins þroska og auðga um leið menningarlíf hverfisins. Í því skyni mun Tónlistarfélagið leggja áherslu á eftirfarandi meginatriði: 

1.  Að standa fyrir og styðja við tónlistarviðburði sem snúa að ungu fólki.

2.  Byggja upp aðstöðu þar sem ungt fólk getur skapað, iðkað og tekið upp tónlist.

3.  Að styðja, leiðbeina og hvetja ungt fólk til tónlistariðkunar.

Með þessi markmið að leiðarljósi, mun Tónlistarfélagið taka virkan þátt í að byggja upp samfélag einstaklinga sem hafa áhuga á tónlist og tónlistariðkun.  Áhugi á tónlist þarf ekki bara að einskorðast við hljóðfæraleikara, heldur getur einnig verið um að ræða tæknimenn, upptökustjóra, útsetjara, lagahöfunda, umboðsmennsku, kynningarfulltrúa, viðburðarstjóra, rótara og alla sem áhuga hafa á tónlist og vilja taka þátt.

Tónlistarfélag Árbæjar mun þjóna austurhverfum borgarinnar, Árbæjarhverfi, Breiðholti, Grafarvogi og Grafarholtshverfi.

Á samningstímanum, sem er til þriggja ára , styrkir Reykjavíkurborg Tónlistarfélagi Árbæjar um 7.500.000 kr í ár og 9.000.000.kr - á ári árin 2020 og 2021.

Heimsókn í Breiðholtslaug

Borgarstjóri kom einnig við í Breiðholtslaug þar sem hann skoðaði breytingar sem hafa verið gerðar á sundaðstöðunni undanfarna viku. Búið er að taka í notkun kaldan pott sem var vinningstillaga í kosningunni um Hverfið mitt árið 2018. Þá er búið að koma fyrir nýjum nudd dælum í heitan pott, nýtt barnasvæði með vatnsleiktækjum og rennibraut hafa verið tekin í notkun. Það ætti því engum að leiðast í Breiðholtslaug í sumar.