Reykjavíkurborg styður við notkun fjölnota poka | Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg styður við notkun fjölnota poka

þriðjudagur, 11. september 2018

Reykjavíkurborg tekur þátt í Plastlausum september í annað sinn og hvetur borgarbúa til að gera slíkt hið sama. Sérstaklega óskar borgin og Plastlaus september eftir samstarfsaðilum til að setja upp pokastöðvar í verslunum og verslunarkjörnum.

 • Ajten með pokann tilbúinn.
  Ajten með Boomerang pokann tilbúinn en hún starfaði sem saumakona í Makedóníu og vill gjarnan fá starf sem saumakona á Íslandi.
 • Boomerang merki klippt til að setja á fjölnota poka.
  Ajten frá Makedóníu og Brunilda frá Albaníu klippa Boomerang merki til að setja á fjölnota poka.
 • Ajten frá Makedóníu og Brunilda frá Albaníu ákveða hvar Boomerang merkið eigi að vera á pokanum.
  Ajten frá Makedóníu og Brunilda frá Albaníu ákveða hvar Boomerang merkið eigi að vera á pokanum.
 • Linda frá Sýrlandi og Domarvi frá Venúsaela sauma fjölnota poka. úr gömlum stórísum er hægt að búa til grænmetis- og ávaxtapoka.
  Linda frá Sýrlandi og Domarvi frá Venúsaela sauma fjölnota poka. úr gömlum stórísum er hægt að búa til grænmetis- og ávaxtapoka.
 • Þær Ativije og Ajten frá Albaníu tóku að sér að setja Boomerang merki á fjölnota töskur fyrir Plastlausan september.
  Þær Ativije og Ajten frá Albaníu tóku það að sér með glöðu geði að setja Boomerang merki á fjölnota töskur fyrir Plastlausan september.
 • Brunilda og Adivije halda á Boomerang poka sem Adivije frá Albaníu saumaði.
  Brunilda og Adivije halda á Boomerang poka sem Adivije frá Albaníu saumaði.

Plastlaus september er átak sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um notkun á óþarfa plasti og skaðsemi þess ef það berst út í umhverfið. Margar leiðir eru færar fyrir íbúa til að draga úr eða hætta allri plastnotkun, m.a. að afþakka plastpoka og nota fjölnota poka, sneiða hjá einnota borðbúnaði og rörum úr plasti auk þess að versla fremur vörur í litlum eða engum umbúðum ef það er í boði. Mörg fyrirtæki hafa einnig lagt átakinu lið með margskonar aðgerðum sem draga úr notkun á plasti og einnota umbúðum.

Plast endist í óratíma og það er slæmur kostur fyrir einnota notkun. Allt plast sem við notum og fer ekki til endurvinnslu, safnast fyrir á urðunarstöðum eða í náttúrunni og veldur þar skaða um ókomna tíð. 

Lögð er áhersla á fjölnota poka í deilihagkerfi eða svokallaða pokastöðvar. Verkefnið snýst um að fá poka lánaða og skila þeim aftur. Verslunum með pokastöðvar er að fjölga og það er verðugt markmið að pokastöðvar verði í flestum ef ekki öllum verslunum og verslunarkjörnum borgarinnar.

Pokastöðvar í verslunum

Reykjavíkurborg vill styðja við og hvetja til svokallaðra pokastöðva í verslunum. Boomerang pokar, eða endurkast er yfirskrift átaksins sem þýðir að þú færð lánaða poka og skilar þeim aftur. Verkefnið hófst á Hornafirði árið 2016 og er í dag hluti af alþjóðlegu verkefni sem heitir Boomerang Bags og á uppruna sinn í Ástralíu.

Aðalmarkmiðið er að fólk hætti að nota plastpoka og að verslanir hætti að bjóða þá.  Enn upphafið er að draga úr notkun á plastpokum með því að mynda hringrás fjölnota poka í Reykjavík og íbúar geti nálgast fjölnota poka í verslunum. Margir kannast við að gleyma fjölnota pokanum þegar komið er í búðina og freistast þá oft til að kaupa plastpoka undir vörurnar eða enn einn fjölnota pokann sem fer inn í skáp þegar heim er komið. Ef verslun hefur pokastöð geta viðskiptarvinir fengið lánaðan poka úr pokastöðinni og skilað aftur í næstu ferð.

Hvernig tekur þú þátt?

Margir hafa lagt verkefninu lið en árangur verkefnisins ræðst að því að sjálfboðaliðar hittast, sauma taupoka úr efni sem annars hefði verið ekki verið nýtt, s.s. gardínum, gallabuxum eða öðrum textíl sem ekki nýtist í annað. Pokunum er síðan komið fyrir í verslunum í nágrenni við þann hóp sem saumaði pokana og þar geta viðskiptavinir fengið lánaðan taupoka og skilað aftur í körfuna við tækifæri.

Sem dæmi um hópa sem hafa lagt verkefninu lið eru konurnar á ljósmyndunum með frétt. Þær eru hælisleitendur og eru enn utan vinnumarkaðar en hafa í gegnum Hjálparstarf kirkjunnar saumað fjölnota poka til að nota á pokastöðvum. Hjá þeim geta einstaklingar og fyrirtæki keypt poka til að koma upp pokastöðvum. Einnig hafa fölmargir einstaklingar og saumaklúbbar komið pokastöðvum á laggirnar.

Áhugasamir geta skoðað fésbókarsíðu verkefnisins og séð hvort hópur er starfandi í nágrenninu annars er ekkert því til fyrirstöðu að stofna sinn eigin hóp. Í hverju samfélagi geta verið fleiri en einn hópur. 

Reykjavíkurborg hefur látið útbúa merkingar sem áhugasamir íbúar geta nálgast til að sauma á pokana. Mikilvægt að merkja taupoka sem eru í pokastöðvahringrásinni með merki verkefnisins til að vekja athygli og áhuga á því. Allir geta komið í þjónustuver Reykjavíkurborgar í Borgartúni og á þjónustumiðstöðvar borgarinnar og fengið slík merki frítt vilji þeir merkja poka.

Meðal verslana sem sýnt hafa áhuga á að setja upp pokastöðvar undir merkjum Boomerang poka eru Krónan og Nettó og eru fleiri verslanir og verslunarkjarnar hvattir til að gera slíkt hið sama.

Tengdir hlekkir;

Fésbókarsíða Boomerang poka fyrir þá sem vilja taka þátt í verkefninu

Myndband sem sýnir Boomerang pokagerð

Kort með punktum af þeim stöðum sem eru farnir af stað eða í startholunum

Pokastöð fyrstu skrefin

Nánari upplýsingar um plastlausan september

#plastlaus september #plastlaus #pokastod #Boomerangbags