Reykjavíkurborg stofnar grænan skuldabréfaflokk | Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg stofnar grænan skuldabréfaflokk

fimmtudagur, 22. nóvember 2018

Borgarráð ákvað á fundi sínum í dag að stofna grænan skuldabréfaflokk og hefja útgáfu grænna skuldabréfa í þessum nýja flokki.

  • Fólk á hjólum og gangandi vegfarendur á hjóla- og göngustíg við Nauthólsvík.
    Dæmi um fjárfestingar sem gætu fallið undir kröfur Græna rammans eru m.a. gerð göngu- og hjólastíga í borginni.

Skuldabréfaflokkurinn er til 30 ára verðtryggður á föstum vöxtum með jöfnum greiðslum á sex mánaða fresti með lokagjalddaga 21. október 2048.

Tilgangurinn er að fjármagna græn fjárfestingarverkefni Reykjavíkurborgar í samræmi við Grænan ramma Reykjavíkurborgar (Green Bond Framework ). Einungis má fjármagna með grænum skuldabréfum borgarinnar þau verkefni sem uppfylla strangar kröfur Græna rammans. Græni ramminn liggur fyrir í drögum en verður afgreiddur í borgarráði 29. nóvember nk. Sérstök valnefnd velur fjárfestingarverkefnin á grundvelli umsagnar sérfróðra aðila og gerir tillögu til borgarráðs um þau. Áskilið er að tillaga valnefndar byggi á samhljóða ákvörðun nefndarinnar.

Dæmi um fjárfestingar sem gætu fallið undir kröfur Græna rammans eru gerð göngu- og hjólastíga, innleiðing á LED ljósum fyrir götulýsingu og hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla.

Fossar Markaðir hafa umsjón með sölu bréfanna og samskipti við fjárfesta.