Reykjavíkurborg selur Alliance húsið | Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg selur Alliance húsið

föstudagur, 26. október 2018

Borgarráð hefur heimilað að gengið verði til samninga um sölu á Alliance húsinu að Grandagarði 2 og tengdum byggingarrétti. Söluverðið er 900 milljónir króna.

  • Alliance húsið við Grandagarð 2 og nýtt samþykkt deiliskipulag.
    Alliance húsið við Grandagerð verður selt ásamt byggingarrétti samkvæmt nýju deiliskipulagi á reitnum. Þar verður margvísleg starfsemi áfram ef hugmyndir ná fram að ganga.
  • Alliance húsið áður en það var gert upp. Mynd: Reykjavíkurborg.
    Alliance húsið rétt eftir að Reykjavíkurborg keypti húsið. Borgin gerði húsið upp og vann deiliskipulag fyrir reitinn. Mynd: Reykjavíkurborg.

Það er Alliance þróunarfélag sem varð hlutskarpast í auglýstu samkeppnisferli og býður félagið 900 milljónir króna í húsið og byggingarrétt á lóðinni í kring.

Reykjavíkurborg festi kaup á húsinu árið 2012. Ytra byrði hússins er friðað og gerði Reykjavíkurborg húsið upp að utan.

Sögusafnið og veitingahúsið Matur og drykkur eru með starfsemi í húsinu. Þar er einnig Norðurljósasýning. Að auki hafa nokkrir listamenn aðstöðu á efri hæðum. Verður húsið selt með núverandi leigusamningum.

Reykjavíkurborg lét vinna nýtt deiliskipulag fyrir húsið og umhverfi þess sem hafði það að markmiði að auka nýtingu á lóðinni í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010 – 2030 og þróun borgarinnar sem stefnt er að í Aðalskipulaginu.

Basalt arkitektar unnu deiliskipulagið fyrir reitinn sem samþykkt var í borgarráði í mars 2018.

Borgarráð ákvað að hefja söluferli á fasteigninni og meðfylgjandi byggingarrétti 28. júní síðastliðinn.

Ákveðið var að halda samkeppni þar sem kaupverð myndi hafa 50% vægi en umsóknir að öðru leyti metnar eftir ákveðnum þáttum eins og hugmyndafræði, hönnun og samráð við nærumhverfi sem hefði 50% vægi.

Þann 27. ágúst 2018 var Grandagarður auglýstur til sölu og áhugasömum gefinn frestur til þess að skila inn tillögum til 3. október sl. Þrír aðilar skiluðu inn tillögum. Verðtilboðin voru eftirfarandi: Alliance þróunarfélag 900 milljónir Skipan 650 milljónir Átak 300 milljónir.

Tilboð Alliance þróunarfélags var metið áhugaverðast út frá bæði verði og hugmyndum um starfsemi og þróun á reitnum. Reykjavíkurborg mun því ganga til samninga við félagið.

Sjá gögn málsins í fundargerð borgarráðs undir máli nr. 25