Reykjavíkurborg og Reitir vilja byggja upp á Kringlureit | Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg og Reitir vilja byggja upp á Kringlureit

miðvikudagur, 17. janúar 2018

Í dag skrifuðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðjón Auðunsson forstjóri Reita undir viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Reita um uppbyggingu á Kringlureitnum og verður það umfangsmesta uppbygging á svæðinu frá því verslunarmiðstöðin Kringlan var opnuð árið 1987. Reitir og Reykjavíkurborg munu vinna saman að nýju rammaskipulagi fyrir svæðið og breyta gildandi skipulagsáætlunum. Miðað er við að verkefnið verði unnið í anda húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. 

 • Framtíðarbyggð á Kringlusvæðinu. Hugmyndasamkeppni.
  Framtíðarbyggð á Kringlusvæðinu. Hugmyndasamkeppni.
 • Guðjón Auðunsson forstjóri Reita og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu undir viljayfirlýsingu í dag
  Guðjón Auðunsson forstjóri Reita og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu undir viljayfirlýsingu í dag
 • Guðjón Auðunsson forstjóri Reita og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu undir viljayfirlýsingu í dag
  Guðjón Auðunsson forstjóri Reita og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu undir viljayfirlýsingu í dag
 • Dagur sýndi Degi hvar hann vill búa í framtíðinni
  Dagur sýndi Degi hvar hann vill búa í framtíðinni
 • Framtíðarbyggð á Kringlusvæðinu. Úr hugmyndasamkeppni.
  Framtíðarbyggð á Kringlusvæðinu. Úr hugmyndasamkeppni.
 • Framtíðarbyggð á Kringlusvæðinu. Horft til norðurs.
  Framtíðarbyggð á Kringlusvæðinu. Horft til norðurs.

Myndaður verður starfshópur meðfulltrúum Reita, skipulagsfulltrúa og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til að vinna að verkefninu og verkstýra vinnu við gerð ramma- og deiliskipulagsáætlana sem unnar verða í beinu framhaldi af hugmyndasamkeppni um Kringlusvæðið sem haldin var í fyrra. Samhliða verður komið á fót vinnuhóp sem mun vinna hið eiginlega rammaskipulag og verður hann skipaður fulltrúum Kanon arkitekta, vinningshafa í hugmyndasamkeppninni um skipulag svæðisins, fulltrúa frá THG arkitektum,  fulltrúa skipulagsfulltrúa, tæknilegum ráðgjöfum, Reitum og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg.

Gert er ráð fyrir að drög að rammaskipulagi liggi fyrir um mitt ár 2018 og að fyrsti deiliskipulagsáfangi verði auglýstur til kynningar fyrir árslok 2018.

Kringlan verður öflugur borgarkjarni   

Hugmyndir Reita ganga út á að byggja upp nútímalegan og öflugan borgarkjarna með verslun og þjónustu sem þjónar jafnt íbúum nærliggjandi hverfa, nýrrar íbúðabyggðar á Kringlureitnum en ekki síst öðrum gestum og íbúum höfuðborgarsvæðisins. Bættar vegatengingar, gönguleiðir og almenningssamgöngur munu skipa mikilvægan sess í sköpun þessarar framtíðarsýnar.

Vinningstillaga hugmyndasamkeppninnar, sem myndar grunn að vinnu um ramma- og deiliskipulagsvinnu,  fellur vel að sýn Reita og hugmyndum Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á þéttingarreitum. Í tillögunni er unnið með einfalda reitaskiptingu sem fellur vel að hefðbundnu byggðarmynstri borgarinnar og skapar sterka heild. Tillagan gerir ráð fyrir að Borgarlínustöð verði staðsettar við Kringlumýrarbraut og Miklubraut og þjóni Kringlusvæðinu og nærliggjandi vinnustöðum og menntastofnunum. Gatnakerfi er vel útfært og býður upp á hefðbundnar borgargötur með rólegri bílaumferð og lífvænlegri þjónustu á jarðhæðum. Húsareitir eru ferningslaga með rúmgóðum, opnum inngörðum. Gert er ráð fyrir allstóru almenningsrými á miðju svæðisins, sem kallast Kringlustétt. Hamrahlíð er framlengd inn á svæðið og nýr inngangur í Kringluna hafður í öndvegi við enda götunnar. Hús Sjóvár og Hús verslunarinnar eru felld haganlega inn í nýja byggð. Eins konar fortorg sunnan við Borgarleikhúsið gæti lyft húsinu upp í umhverfinu og gert aðkomuna að því skemmtilegri en nú er.

Heildarstærð Kringlusvæðis er um 13 hektarar að flatarmáli og samanlagt flatarmál bygginga á svæðinu er um 92 þúsund fermetrar (brúttó). Skipulagstillögur úr hugmyndasamkeppni um framtíðaruppbyggingu Kringlusvæðisins sýna fram á að svæðið geti vel borið 140-170 þúsund fermetra uppbyggingu til viðbótar og að mögulegt sé að fjölga íbúðum verulega miðað við núverandi heimildir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Það heimilar 180 íbúðir en talið er að þeim geti jafnvel fjölgað í 5-600.  Endanlegt umfang byggðarinnar mun ráðast í kjölfar vinnu við rammaskipulag þar sem einnig verður horft til samgönguþátta og umferðarskipulags. Reykjavíkurborg, í samstarfi við Reiti, mun taka upp viðræður við Vegagerðina og samgönguyfirvöld varðandi nýjar og/eða breyttar vegtengingar, umferðarskipulag og veghelgunarsvæði.