Reykjavíkurborg í viðbragðsstöðu vegna Covid-19

Covid-19 Stjórnsýsla

""

Í kjölfar ákvörðunar yfirvalda um hertar sóttvarnaraðgerðir vegna Covid-19 fundaði neyðarstjórn Reykjavíkurborgar í dag um aukna þörf fyrir smitgát í starfsemi borgarinnar í samræmi við viðbragðsáætlun. Þjónusta Reykjavíkurborgar helst í megindráttum óbreytt en vinnulag verður sniðið að nýjum samkomutakmörkunum.

Fyrr í vikunni voru starfsmenn borgarinnar hvattir til að huga vel að sínum einstaklingbundnu sóttvörnum og stjórnendur hafa yfirfarið  sóttvarnir á starfsstöðum. Þá hafa sérstakar leiðbeiningar verið útbúnar vegna starfsfólks sem er að koma til vinnu erlendis frá til að draga úr smithættu.

Til að vernda viðkvæma hópa hefur velferðarsvið takmarkað fjölda gesta til íbúa eins og hægt er. Gefnar hafa verið út  leiðbeiningar til aðstandenda íbúa á hjúkrunarheimilum, í þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara, íbúakjörnum og sambýlum fyrir fatlað fólk. Velferðarsvið mun ekki loka starfseiningum eða skerða þjónustu að svo búnu,  svo sem í félagsstarfi aldraðra og mötuneytum en gætt verður vel að 2ja metra reglunni og fjöldatakmarkanir virtar.

Starfsemi safna helst að mestu óbreytt en þó gætt að fjöldatakmörkunum og 2ja metra reglunni. 

Sundlaugarnar verða opnar með takmörkunum.  Ekki mega fleiri en 100 manns vera í hverju rými og halda skal 2ja metra fjarlægð. Merkingar um fjöldatakmarkanir verða settar upp við potta og gufur og sótthreinsunarspritt haft aðgengilegt. Sömu reglur gilda um um Ylströndina. Opnunartímar haldast óbreyttir.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn takmarkar fjölda gesta og hefur skipulagt flæði þeirra til að takmarka smithættu. Öll hefðbundin dagskrá í kringum dýrin fellur niður og lokað verður  í loðdýrahúsi, smádýrahúsi, skriðdýrahúsi og Þrumufleyg. Í veitingasölu verða fjöldatakmarkanir, auk þess sem sjálfssalar í sjoppu og grillsvæði verða lokaðir. Takmarkanir verða á fjölda fullorðinna í valin tæki. Þrif á snertiflötum innanhúss sem utan verða tíðari.  Opnunartímar haldast óbreyttir.

Reykjavíkurborg er  í viðbragðsstöðu og mun grípa til viðeigandi ráðstafana í samráði við almannavarnir og sóttvarnarlækni eftir þörfum.

 

Upplýsingum frá Reykjavíkurborg um Covid-19  verður miðlað á vefsvæðið https://reykjavik.is/covid19  á íslensku, ensku og pólsku.