Reykjavík dregur vagninn í hagvexti á Íslandi

Stjórnsýsla Umhverfi

""

„Stærsta hagvaxtarsvæði á landinu er í Reykjavík og framundan er mikil fjárfesting, bæði erlend og innlend. Reykjavík dregur vagninn í hagvexti á Íslandi,“  sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri á opnum morgunfundi um fjárfestingu í Reykjavík sem haldin var í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Hátt í  300 manns mættu á fundinn. 

„Á þessum fundi er ætlunin að borgarbúar, fagaðilar og aðrir fái yfirsýn yfir það sem framundan er í fjárfestingu í borginni,“ segir borgarstjóri sem fór vítt og breitt yfir svið framkvæmda og uppbyggingar í borginni með vandaðri glærusýningu.

        :: Skoða kynningarglærur borgarstjóra.

Dagur hóf mál sitt á því að fara yfir ferðamannaiðnaðinn og hóteluppbyggingu í Reykjavík  en á þessu ári er áætlað að um 800 hótelherbergi verði tekin í notkun í Reykjavík. Þá tilkynnti hann um nýtt fimm stjörnu hótel sem samningar hafa tekist um á Hörpureitnum en framkvæmdir við það hefjast í haust.

Borgarstjóri fór yfir uppbyggingaráform Landspítalans og þekkingarþorp í Vatnsmýrinni, samstarf háskólanna og Reykjavíkurborgar um víðtæka uppbyggingu háskólanna, þekkingarfyrirtækja og samtaka stúdenta.

Hann lýsti einnig áformum um uppbyggingu á vegum borgarinnar, einkaaðila og fleiri á nýjum uppbyggingarreitum í Vesturbugt, Kirkjusandi og við Hlemm.

Þá fór hann einnig yfir fyrirhugaða uppbyggingu á vegum Faxaflóahafna, bæði í Sundahöfn og á Grundartanga.

Dagur sagði einnig frá kaupum Reykjavíkurborgar á landi í Varmadal sem þykir henta vel fyrir uppbyggingu gagnavers þar sem tengivirki Landsnets er þar rétt hjá.

Hann ræddi um fyrirhugaða samgöngumiðstöð á landi Reykjavíkurborgar við Umferðarmiðstöðina.

Að lokum fór Dagur yfir fjárfestingar á vegum borgarinnar en þær verða miklar eins og undanfarin ár eða um 8,5 milljarðar króna.

Meðal stórra verkefna hjá borginni sem borgarstjóri nefndi og eru í undirbúningi eða að fara af stað eru skóla- og íþróttamannvirki í Úlfarsárdal, viðbyggingar við Klettaskóla og Vesturbæjarskóla og útilaug við Sundhöll Reykjavíkur.