Réttur erfingja til greiðslu sérstakra húsaleigubóta

Velferð

""

Lögerfingjar, aðrir erfingjar eða umsjónarmenn dánarbúa, 80 látinna leigjenda hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, gætu átt rétt á greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann.

Á síðastliðnu ári greiddi velferðarsvið Reykjavíkurborgar sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann í samræmi við tillögu borgarráðs sem samþykkt var á fundi þann 3. maí 2018. Með tillögunni var velferðarsviði Reykjavíkurborgar falið að afgreiða kröfur frá leigjendum Brynju – Hússjóði Öryrkjabandalags Íslands, um greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2016, á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015, án tillits til þess hvort umsókn hafi legið fyrir. Auk þess var lagt til að dráttarvextir yrðu greiddir til þeirra sem ættu rétt á greiðslum sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann án þess að gerð væri sérstök krafa um það.

Af þeim rúmlega 500 einstaklingum sem áttu rétt á greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann eru um 80 einstaklingar látnir. Lögerfingjar, aðrir erfingjar eða umsjónarmenn dánarbúa, sem telja sig eiga rétt á greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann eru hvattir til að senda tölvupóst á serstakar@reykjavik.is til að kanna rétt sinn.

Ef um er að ræða rétt til greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann ásamt dráttarvöxtum verður upplýst um þann rétt og þá fjárhæð sem um ræðir. Í framhaldinu geta erfingjar/umsjónarmenn haft samband við sýslumannsembættið þar sem skipti fóru fram og fengið nánari upplýsingar um þær aðgerðir og þau gögn sem þurfa að liggja fyrir svo hægt sé að ganga frá greiðslu sérstakra húsaleigubóta og dráttarvaxta.