Reglur um NPA þjónustu

Velferð

""

Velferðarráð hefur samþykkt reglur borgarinnar um notendastýrða persónulega aðstoð eða NPA þjónustu.

Reglurnar grundvallast á 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð nr. 1250/2018. Við framkvæmd reglnanna verða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks höfð að leiðarljósi.

Við gerð reglnanna hefur verið haft samráð við fulltrúa málefnahóps Öryrkjabandalags Íslands um sjálfstætt líf. Einnig var haft samráð við NPA-miðstöðina, Þroskahjálp og Átak, félag fólks með þroskahömlun. Mjög gagnlegar ábendingar og athugasemdir bárust frá ofangreindum hagsmunasamtökum.

NPA þjónusta byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og er markmiðið að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks svo að það megi lifa sjálfstæðu og virku lífi og hafi val um hvernig aðstoðinni við það er háttað.

Borgin setti á laggirnar tilraunaverkefni um NPA þjónustu árið 2013 og hafa nítján einstaklingar fengið NPA samninga á tilraunatímanum. Mikil sátt hefur ríkt um þessa þjónustu og ljóst er að þetta nýja þjónustuform hefur haft jákvæð áhrif á líf og störf notenda NPA. 

Reglurnar munu áfram mótast af reynslu og mati á því hvernig tekst að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks svo það megi lifa sjálfstæðu og virku lífi. Lögð er rík áhersla á virka upplýsingamiðlun og samtal við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og notendur þjónustunnar.

Gildistími reglnanna er frá 1. maí 2019 til 31. desember 2022. Reykjavíkurborg er fyrst sveitarfélaga til að samþykkja reglur um NPA þjónustu. Nýjar reglur verða bornar undir borgarstjórn þriðjudaginn 19. mars.

Reglur um NPA þjónustu.