Rauðhólsgleði, flæði og algleymi sköpunar

Skóli og frístund

""

Starfsfólk í leikskólanum Rauðhóli í Norðlingaholti, blés föstudaginn 16. ágúst til fagnaðar þar sem það kynnti  þróunarverkefnið Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar.

Þróunarverkefnið fólst í því að innleiða aðferðafræði Mihaly Csikszentmilhalyi um flæði og jákvæða sálfræði í alla starfsemi leikskólans Rauðhóls, sem er sá stærsti í borginni.  Aðferðafræðin felur m.a. í sér að skapa námsumhverfi þar sem hverju barni er gefin rödd og því mætt á eigin forsendum óháð kyni, uppruna, sérstökum þörfum og félagslegri stöðu. Flæði er lykilhugtak, flæði sem gefur börnunum tíma og rými til að blómstra á sínu áhugasviði á eigin forsendum.   

Afrakstur þessa metnaðarfulla þróunarverkefnis er jafnframt ný skólanámskrá sem tekur m.a. útgangspunkt í þessum fræðum. Þá hefur leikskólinn gefið út ljósmyndabók þar sem ráðstefnunni „Flæði“ eru gerð skil með ljósmyndum og stuttum texta. Á ráðstefnunni sem haldin var haustið 2018 flutti prófessor Mihaly Csikszentmilhalyi einmitt erindi undir fyrirsögninni; Leyfið þeim að leika, leyfið þeim að flæða.

Ný skólanámskrá Rauðhóls er gefin út undir fyrirsögninni Rauðhóll, þar sem kærleikurinn og gleðin býr og koma þar fram raddir barna og skoðanir þeirra á viðfangsefnum í daglegu starfi. Hægt er að kynna sér hana á heimasíðu leikskólans. 

Leikskólastjóri í Rauðhól í Norðlingaholti er Guðrún Sólveig.