Rappsmiðja, karókí og loftfimleikar á Barnamenningarhátíð í Reykjavík | Reykjavíkurborg

Rappsmiðja, karókí og loftfimleikar á Barnamenningarhátíð í Reykjavík

föstudagur, 13. apríl 2018

Barnamenningarhátíð í Reykjavík verður haldin dagana 17. – 22. apríl nk. Hátíðin er ein sú umfangsmesta á vegum borgarinnar og undirstrikar mikilvægi þátttöku barna í mótun borgarmenningar.

  • Dansað af lífi og sál á Barnamenningarhátíð
    Dansað af lífi og sál á Barnamenningarhátíð
  • Börnin kunna vel að meta hátíðina þar sem þeirra menning fær að blómstra
    Börnin kunna vel að meta hátíðina þar sem þeirra menning fær að blómstra
  • Fjölbreytt dagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna
    Fjölbreytt dagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna

Vettvangur Barnamenningarhátíðar er borgin öll og fara fjölbreyttir viðburðir fram í grunnskólum, leikskólum, frístundamiðstöðvum og listaskólum. Jafnframt er boðið upp á dagskrá í Ævintýrahöllinni í Ráðhúsi Reykjavíkur, Hörpu og lista- og menningarstofnunum borgarinnar. Allir ættu að finna sér viðburð við hæfi í dagskránni og það er frítt inn á þá alla. Með því er aðgengi að menningu barna, með börnum og fyrir börn opnað öllum.

Meðal viðburða má nefna:

UNGI Sviðslistahátíð ASSITEJ fyrir unga áhorfendur 19. -22. apríl. ASSITEJ býður upp á sýningar og námskeið sem henta börnum á öllum aldri, allt frá ungabörnum til unglinga.

UPPTAKTURINN, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna

Ungt fólk sendir inn tónsmíð eða drög að henni.  Valin verk, eru fullunnin í vinnustofu með aðstoð tónskálda og fagfólks í tónlist og verða svo flutt á glæsilegri tónleikadagskrá í Silfurbergi Hörpu þann 17. apríl 2018 kl. 17.00

BARNASÁTTMÁLINN ROKKAR, JÁ HANN ER OKKAR!

Þjóðminjasafn Íslands verður með sýningu á litríkum styttum eftir börn í 6. bekk í Ingunnarskóla. Þau hafa kynnt sér innihald Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og völdu ákveðin réttindi sem þau tjá með styttum sínum.

Segðu mér sögu – Losaðu þig við fordóma – gjörningur

Verkefni sem nemendur í 9. og 10. bekk í Dalskóla hafa safnað sögum fólks sem hafa reynslu af ýmsu úr litrófi fordóma.

LAGIÐ OSTAPOPP

Flutt af Steinunni, Steineyju og Dísu.

Ostapopp er samið fyrir Barnamenningarhátíð í Reykjavík. Lagið er afrakstur verkefnisins Rímur og rapp, lög unga fólksins í hundrað ár sem styrkt er af afmælissjóði vegna 100 ára afmælis fullveldis á Íslandi og unnið í samstarfi við Árnastofnun. Textinn er unninn út frá hugmyndum 4. bekkinga í grunnskólum Reykjavíkur. Lagið verður frumflutt á opnunarviðburði Barnamenningarhátíðar 2018 í Eldborgarsal Hörpu sem fjórðu bekkingum er boðið á.

Texti Steinunn Jónsdóttir út frá hugmyndum 4. bekkinga í Reykjavík 2018 

Lag: Fjallið Fyrir Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2018

Mamma, pabbi, afi og amma og allir hinir eru hvattir til að nýta þetta einstaka tækifæri og njóta barnamenningar með börnunum á Barnamenningarhátíð.

Góða skemmtun.