Ráðstefna og bíllaus dagur í samgönguviku 2019

Samgöngur

""

Samgönguvika er evrópskt átak um bættar samgöngur í borgum og bæjum. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga. Framundan er ráðstefna og bíllaus dagur en þá verður frítt í strætó.

Reykjavíkurborg vill vekja athygli á evrópskri samgönguviku 2019. Sérstaklega á hjólaráðstefnunni Hjólum til framtíðar, frítt í strætó og bíllausu göngunni og listin í náttúrunni. En hér er dagskrá samgönguviku alla daga yfir allt landið.

Dagskrá bíllausa dagsins: "Í ár stendur til að halda stærsta og veglegasta Bíllausa dag sem haldinn hefur verið á Íslandi. Dagskráin hefst klukkan 13:00 þann 22. september þegar Bíllausa gangan / Reykjavík Mobility Parade ((staðsetning kemur síðar) með öllum mögulegum fararskjótum öðrum en einkabílnum mun liðast af stað í átt að Lækjartorgi. Samstaða og gleði verður allsráðandi í göngunni og restina reka tveir hljóðlátir raf-Strætóar sem gangandi geta fengið far með. Á Lækjartorgi og Lækjargötu verður margt um að vera. Viðburður verður við gatnamót Bankastrætis og Lækjargötu með ávörpum og tónlist. Hjólaviðgerðir, kynningarstandar, matarvagnar og fleira. Gerum Bíllausa daginn á Íslandi 2019 þann stærsta hingað til."

Lækjagata verður lokuð bílum 13-17 á bíllausa deginum. Sjá nánar.

Hjólum til framtíðar 2019

Dagskrá Hjólum til framtíðar: Þetta er 9. ráðstefnu Hjólafærni á Íslandi og Landssamtaka hjólreiðamanna undir heitinu Hjólum til framtíðar.
Og hvað er í boði? Gengið til samgangna – stefnumótun – hjólandi verkfræðingur – hollenska hjólasendiráðið – hraði á stígum – lof og lausnir í hjólheimum – lán á rafmagnshjólum – örflæði – litið um öxl – ávarp forsætisráðherra og Elsku pabbi ekki kaupa bíl! Meginþema ráðstefnunnar í ár er Göngum‘etta . Þó það sé frábært að hjóla er ekkert sem jafnast á við að ganga til samgangna – en það hefur eiginlega alveg orðið út undan í hugsuninni um fjölbreyttar ferðavenjur. Því verður annar aðalfyrirlesari ráðstefnunnar Jim Walker frá Walk21. Hann gekk um Ísland fyrir 35 árum og varð fyrir djúpum hughrifum og stofnaði í framhaldinu alþjóðlegu göngusamtökin Walk21. Samtökin leggja áherslu á gott flæði fyrir gangandi vegfarendur í borgum heimsins. Jim Walker hefur lýst yfir sérlegu þakklæti með að fá tækifæri til að heimsækja Ísland og tala á ráðstefnunni – fyrir honum er það kærkomin leið til að þakka þá upplifun sem leiddi til stofnunar Walk21. 

Hans Voerknecht er hinn aðalfyrirlesarinn í ár. Hann hefur um árabil leitt þróun lausna fyrir hjólandi vegfarendur í Hollandi með ráðgjöf og stefnumótun undir hatti Hollenska hjólasendiráðsins. Auk þess er hann vel að sér í raunverulegum kostnaði samfélagsins á því sem í daglegu tali kallast „frí bílastæði“ og talar fyrir eflingu hjóla og almenningssamgangna og nauðsyn þess að draga úr dekri við einkabílinn. Fjölmörg innlend erindi eru einnig á dagskránni, nýir vinnustaðir útskrifast í Hjólavottun og Hjólaskálin verður afhent.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar ráðstefnuna kl. 13 og Diddú mun í lok dagsins syngja hið undurljúfa lag Hrekkjusvínanna „Ekki bíl“.  Ráðstefnan verður send út í beinni útsendingu, nánari upplýsingar hér á ráðstefnudag. Fyrir ráðstefnuna bjóða Hjólafærni og LHM upp á rólega hjólaferð fimmtudaginn 19. sept kl. 18 frá Garðatorgi. Ætlunin er að skoða aðstæður fyrir hjólreiðar í Garðabæ og endum svo á veitingastað IKEA kl. 19.30.

Tengill: Samgönguvika 2019