Ráðið í flest stöðugildi í leikskólum og frístundaheimilum

Skóli og frístund

""

Samkvæmt yfirliti um stöðu ráðningarmála sem kynnt var í skóla- og frístundaráði í dag hefur gengið vel að ráða í laus störf í leikskólum og í frístundastarfinu síðustu vikur. Búið er að ráða í 98% stöðugilda í leikskólum og 91% í frístundaheimilum. 

Ef miðað er við starfsmannafjölda 63 leikskóla í borginni í maí á þessu ári þá hefur verið ráðið í 97,6% stöðugilda. Óráðið er í 38 stöðugildi á deildum, í sérkennslu og stjórnun. Staðan í ráðningarmálum leikskólanna þetta haustið er því sambærileg og á sama tíma og í fyrra, en þess ber að geta að í haust er áætluð aukin starfsmannaþörf sem jafngildir 34 stöðugildum miðað við síðasta ár þar sem leikskólarýmum hefur fjölgað við fjóra leikskóla og stöðugildum hefur verið fjölgað vegna 5 ára barna. Einn leikskóli hefur í haust þurft að skerða tímabundið þjónustu vegna fáliðunar. 

Í 36 grunnskólum borgarinnar hefur verið ráðið í 99% stöðugilda en óráðið er í 22 stöðugildi, þar af 7 stöðugildi kennara, 5 stöðugildi stuðningsfulltrúa og 8 stöðugildi skólaliða. Aukin starfsmannaþörf sem nemur tíu stöðugildum er í grunnskólunum þetta haustið vegna aukins fjölda nemenda.  

Búið er að ráða í 91% stöðugilda á 39 frístundaheimilum í fjórum sértækum félagsmiðstöðvum en enn vantar 96 starfsmenn í rösklega 42 stöðugildi og eru það flest 50% störf.

Þann 16. september var búið að sækja um fyrir 4.241 barn á frístundaheimili og 146 börn í sértækar félagsmiðstöðvar, samtals 4.387 umsóknir. Á biðlista eru 174 börn og eru þau flest í 4. bekk. Reglur um þjónustu frístundaheimila gera ráð fyrir því að verði tafir á þjónustu, t.d. vegna fáliðunar, þá sé litið fyrst til forgangshópa en umsóknir síðan afgreiddar í tímaröð, þó þannig að börnum í 1. bekk er fyrst boðin dvöl, þá börnum í 2. bekk, 3. bekk og að lokum börnum í 4. bekk.

Sjá minnisblað með yfirliti yfir stöðuna í ráðningarmálum

Mikil hreyfing er í ráðningum frá degi til dags og má gera ráð fyrir að tölur í yfirliti um stöðuna hafi þegar breyst.