Póstnúmer 102 Reykjavík samþykkt

Umhverfi Skipulagsmál

""

Póstnúmeranefnd hefur samþykkt póstnúmerið 102 Reykjavík fyrir Vatnsmýrina.

Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra að greiða kostnað vegna stofnunar nýs póstnúmers í Vatnsmýrinni. Kostnaðurinn fellur til við stofnun nýs póstnúmers hjá Íslandspósti og er hann 2.3 milljónir króna auk virðisaukaskatts.

Borgarráð samþykkti 17. janúar sl. að fara þess á leit við póstnúmeranefnd Íslandspósts  að Vatnsmýrin fengi póstnúmerið 101. Samþykkt var að sá hluti póstnúmers 101 sem er sunnan Hringbrautar breytist í póstnúmerið 102 og að mörk við póstnúmer 107 og 105 haldist óbreytt.

„Nýja póstnúmerið 102 er í mínum huga mikið fagnaðarefni og tímabært mál,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Ýmsar borgir eiga í miðborgum sínum gamla bæinn og nýja bæinn og þannig má segja að samspilið verði milli 101 og 102 Reykjavík. Nýja póstnúmerið 102 Reykjavík er eitt mesta uppbyggingarsvæðið á núverandi vaxtarskeiði borgarinnar. Nú þegar póstnúmerið er orðið að veruleika tekur 102 Reykjavík við af 101 Reykjavík sem það póstnúmer þar sem mesta uppbygging landsins á sér stað. Innan póstnúmersins eru Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Stúdentagarðar Háskóla Íslands, háskólagarðar HR og Vísindagarðasvæðið, ásamt Reykjavíkurflugvelli. Til viðbótar er þarna gamla og nýju byggðin í Skerjafirði, nýja byggðin á Hlíðarenda og útivistarperlan í Nauthólsvík.“

Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 1. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Sjá fundargerð borgarráðs