Passa þarf félagslega stöðu barna með ADHD

Jóna Kristín Gunnarsdóttir og Inga Aronsdóttir

Fjölga þurfti sætum á ADHD námskeið fyrir leikskólastarfsfólk vegna mikils áhuga.

Mikill áhugi leikskólastarfsfólks á ADHD námskeiði

Skóla- og frístundasvið bauð öllu starfsfólki leikskóla í Reykjavík að sækja námskeiðið og efla þekkingu sína á ADHD röskuninni og þeim áskorunum sem fylgja.

Upphaflega var gert ráð fyrir 70 plássum en áhuginn var svo mikill að skipta þurfti um sal og fjölga sætum því 205 skráðu sig til leiks. Þær Jóna Kristín Gunnarsdóttir og Inga Aronsdóttir leikskólasérkennari og ráðgjafi héldu námskeiðið, sem er á vegum ADHD samtakanna, en báðar hafa mikla reynslu af vinnu með börnum með ADHD og aðrar sérþarfir á leikskólastiginu.

Mikilvægt að sleppa tuði

Á námskeiðinu var farið yfir hagnýtar leiðir í kennslu barna og fengu þátttakendur verkfæri og fræðslu um ADHD. Hvernig hægt er að kenna börnunum að grípa tilfinningarnar sínar, gefa þeim færi á að hvíla sig á aðstæðum svo að viðbrögð við undirliggjandi tilfinningum skaði ekki félagslega stöðu þeirra. Kennslan þarf að fara fram úti á gólfi og í útiveru með áherslu á jákvæðan aga og ekkert tuð. Þá var lögð áhersla á teymisvinnu,  að nota sjónrænt skipulag og sýna bæði börnum og foreldrum skilning.  

Þeir sem misstu af námskeiðinu og aðrir áhugasamir geta fundið gagnlegt efni á síðu ADHD samtakanna.