Óslóartréð fellt í Heiðmörk

Mannlíf

""

Það var jólalegt um að litast í Heiðmörk í dag þegar borgarstjóri felldi Óslóartréð sem mun prýða Austurvöll yfir hátíðirnar.

Eftir að hafa fengið viðeigandi útbúnað til þess að fella tréð lá leið borgarstjóra að Þorgeirsstöðum í Heiðmörk, bústaðs félags Norðmanna á Íslandi. Áður en lagt var í skógarhögg nutu gestir þess að drekka kaffi sem lagað hafði verið við opinn eld, fá norskt konfekt, íslenskar flatkökur og kleinur.

Í fallegum lundi í Heiðmörk var jólatré ársins fellt en tréð er 14 metra hátt sitkagrenitré sem er 54 ára gamalt.

Óslóartréð verður sett upp á Austurvelli og  jólaljósin á trénu tendruð 1. desember næstkomandi með jólasöng og lúðrahljómi.

Í Heiðmörkinni var einnig fellt tré sem verður fært Færeyingum að gjöf og kemur til með að prýða Tinghúsvöllinn  í miðborg Þórshafnar. Eimskip sem flutti áður Óslóartréð til Íslands mun sjá um flutning á trénu til Færeyja.