Öskudagsráðstefna kennara 5. mars

Skóli og frístund

""

Öskudagsráðstefna 2014 fyrir kennara í grunnskólum Reykjavíkur verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica  -  5. mars kl. 13:00-16:20. Yfirskrift hennar er Já kennari! og eru áhugaverðir fyrirlestrar og málstofur í boði. 

Aðalfyrirlesari eru danski fræðimaðurinn Hans Henrik Knoop sem fjalla mun um mikilvægi þess að allir nái að blómstra í skólastarfi, hvort sem það eru kennarar eða nemendur. Hans Henrik er eftirsóttur fyrirlesari sem haldið hefur erindi fyrir skólafólk og aðra fræðimenn um heim allan á undanförnum árum. Á ráðstefnunni verða málstofur þar sem sagt verður frá rannsóknum nokkurra kennara á læsi, starfendarannsóknum kennara, notkunarmöguleikum útikennsluapps í kennslu og jákvæðri sálfræði. Að auki er ein málstofa þar sem fjallað er um kennarann sem leiðtoga en fyrirlesararnir eru dönsk hjón sem starfað hafa með fjölmörgum kennurum og skólum í Danmörku.

Dagskrá 
•         Setning: Linda Heiðarsdóttir, kennari í Laugalækjarskóla.
•         Tónrænar hugleiðingar uppgjafa barnakennara – Hjörleifur Hjartarson.
•         Aðalfyrirlesari: Hans Henrik Knoop - Jákvæð sálfræði í skólastarfi – Ánægja af námi, forsenda námsárangurs.

•         Málstofur:

  • Kennarar sem rannsaka læsi
  • Kennarar sem rýna sitt starf
  • Kennarar sem leiðtogar
  • Kennarar í snjallri útikennslu
  • Kennarar og jákvæð sálfræði

Samantekt og slit: Rósa Ingvarsdóttir, formaður Kennarafélags Reykjavíkur.
Ráðstefnustjóri: Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir skólastjóri Hamraskóla.

Skráningu á ráðstefnuna er lokið!

Fyrirlesarar og málstofur


Aðalfyrirlestur - 
Jákvæð sálfræði í skólastarfi – Ánægja af námi, forsenda námsárangurs (Positive Psychology in Education: the joy of learning as a precondition for academic performance)

Umræða um menntun er afar mikilvæg í allri umfjöllun um framtíðina, en sumir þættir menntunar skila ekki tilætluðum árangri. Í jákvæðri sálfræði er lögð áhersla á að nemendur og kennarar blómstri í skólastarfinu. Það sem gefur náminu gildi er það að öðlast reynslu, skilja eitthvað nýtt, upplifa flæði og gleði, stjórn á aðstæðum og ekki síst að upplifa sjálfsprottna löngun, viljastyrk og sjálfsaga til að afla sér aukinnar þekkingar og reynslu. Skóli þar sem framangreint er ríkjandi er líklegri til að skila til samfélagsins einstaklingum sem eru áhugasamir, eftirsóttir, ánægðir og samkeppnisfærir. Öll samfélög þurfa á áhugasömum borgurum að halda og það síðasta sem samfélagið þarf á að halda er skólakerfi sem elur af sér áhugalausa einstaklinga.

Hans Henrik Knoop er forseti Evrópusamtaka um jákvæða sálfræði (European Network for Positive Psychology). Hann er aðstoðarprófessor í menntunarsálfræði og forstöðumaður rannsóknarstofu um jákvæða sálfræði við Háskólann í Árósum í Danmörku. Hans Henrik er eftirsóttur fyrirlesari sem haldið hefur fjölda fyrirlestra á ráðstefnum um allan heim. Hann leggur áherslu á nám, sköpun og fagmennsku og hefur verið í samstarfi við yfir 15.000 nemendur og 2.500 kennara og tekið þátt í rannsóknum m.a.með fræðimönnum við Harvard og Stanford háskóla. Hans Henrik hefur einnig verið veitt dönskum stjórnvöldum faglega ráðgjöf í menntamálum. 
Hér má sjá upptöku af umfjöllun Knoop um jákvæða sálfræði í skólastarfi. 

Málstofur:
1. Kennarar sem rannsaka læsi


Myndasögur sem lestrarefni
Tækni og áhrif ólíkra miðla setja æ meiri svip á daglegt líf ungra barna. Miðlar verða sífellt margbrotnari og kenna þarf nemendum að verða læs á margs konar miðla. Börn kynnast ung margvíslegu efni, tæknilegu og fjölbreyttu að formi og gerð og skilja fljótt að það veitir þeim þekkingu á ýmsu og eflir skilning á öðru. Myndasögur eru gott dæmi um táknkerfi þar sem myndir, texti og fleiri tákn skapa saman atburðarás sem barnið les og skilur með stuðningi af fyrri reynslu sinni og skilningi. Með því að bjóða upp á mikla fjölbreytni í gerð lestrarefnis fyrir byrjendur er ýtt undir og stutt við það víðlæsi sem að búa þarf yfir til að takast á við margbrotna miðla sem einkenna umhverfi nútímabarna.
Hafdís G. Hilmarsdóttir hefur kennt við Laugarnesskóla síðan haustið 2006. Hún lauk M.Ed. frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


Hvernig mætir grunnskólinn þörfum nemenda með lestrarerfiðleika?

Hér verður sagt frá rannsókn þar sem annars vegar var skoðað hvernig grunnskólakennarar skipuleggja lestrarkennslu nemenda með lestrarerfiðleika og hins vegar var skoðuð afstaða foreldra barna með lestrarerfiðleika til kennslunnar. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þrátt fyrir að flestir kennarar í þeim skólum sem rannsóknin náði til leggi sig fram við að mæta þörfum nemenda með lestrarörðugleika eins vel og hægt er, er víða pottur brotinn í því efni. Margir kennarar telja sig ekki hafa nægjanlega þekkingu á lestrarerfiðleikum og finnst vanta tíma í faglega umræðu við samstarfsfólk sökum álags í starfi.
Jóhanna Lovísa Gísladóttir er deildarstjóri sérkennslu í Foldaskóla. Hún lauk M.Ed.  frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands með áherslu á lestrarerfiðleika barna


„Núna er létt að lesa.“  Notkun stýrðrar kennslu og námshröðunar til að auka lesfimi

Stýrð kennsla er kerfisbundin, árangursmiðuð kennslunálgun sem hefur það að markmiði að kenna á sem skilvirkastan hátt. Lögð er áhersla á að mæta hverjum nemanda þar sem hann er staddur í námsferlinu og auka færni skref fyrir skref.  Námshröðun er kerfisbundin leið sem er hægt að nota með öllum kennsluaðferðum, en góður árangur hefur verið af því að nota hana samhliða stýrðri kennslu. Meginmarkmið námshröðunar er að þjálfa upp nákvæmni og hraða eða fimi (fluency). Nemendur gera endurteknar æfingar með tíðum, hvetjandi mælingum til að ýta undir framfarir.
Guðrún Björg Ragnarsdóttir er kennari í Hlíðaskóla. Hún lauk M.Ed. gráðu  í náms- og kennslufræði frá Háskóla Íslands. Hún undirbýr nú rannsókn á áhrifum stýrðrar kennslu og námshröðunar á lesfimi nemenda sem eiga í lestrarerfiðleikum.
Málstofustjóri: Kristín M. Ólafsdóttir

2. Kennarar sem rýna sitt starf

  
Starfendarannsóknir: Að rýna í eigin kennsluhætti

Síðustu ár hafa starfendarannsóknir verið að ryðja sér til rúms í íslensku skólastarfi. Í grunninn snúast starfendarannsóknir um að starfsfólk skóla leiti leiða til að draga fram og þróa eigin starfshætti með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Í þessari málstofu mun Karen Rut Gísladóttir lektor fjalla um starfendarannsóknir almennt og hvað felst í því að rannsaka eigin kennslu.  Síðan munu kennari og aðstoðarskólastjóri fjalla um starfendarannsóknir og þær leiðir sem þær hafa farið til að þróa eigin starfshætti í gegnum gagnaöflum, umræður og skrif.
Karen Rut Gísladóttir er lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Kristjana Skúladóttir er umsjónarkennari í Melaskóla og Margrét Ásgeirsdóttir er aðstoðarskólastjóri Melaskóla.
Málstofustjóri: Edda Kjartansdóttir

3. Kennarar sem leiðtogar (The Teacher as a Facilitator)
 

Til að skapa hvetjandi námsumhverfi þurfa kennarar í dag að endurskilgreina hlutverk sitt. Kennarinn getur ekki aðeins litið á sjálfan sig sem sérfræðing í því að kom þekkingu áleiðis til nemenda sinna. Hann þarf einnig að hafa vald á leiðtogahlutverkinu. Leiðtoginn er einstaklingur sem á virkan hátt gefur nemendunum hlutdeild í námsferlinu og hjálpar þeim að skapa nýja þekkingu og gefa eldri þekkingu merkingu á nýjan hátt. Til að gera það þarf kennarinn að tileinka sér nýjar kennsluaðferðir. Í málstofunni munu fyrirlesararnir kynna og ræða nýtt hlutverk kennarans. Þátttakendur munu prófa leiðtogatækni sem þeir geta auðveldlega notað í eigin kennslu. Leiðbeinendurnir munu kynna notkun þessarar tækni í dönskum skólum.
Bo Krüger og Marianne Boye starfrækja eigin ráðgjafarafyrirtæki, Moving Minds sem sérhæfir sig í nýsköpun, námi og leiðtogafærni og byggja þar m.a. á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði. Þau  eru um þessar mundir að skrifa bók um kennarann sem leiðtoga „The facilitating Teacher".
Málstofustjóri: Guðrún Margrét Snorradóttir

4. Kennarar í snjallri útikennslu

 
Útikennsluapp fyrir grunnskóla
Útikennsluapp er forrit fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem birtir námsefni fyrir leik- og grunnskólabörn á tilteknum gönguleiðum um borgina. Í málstofunni munu þátttakendur kynnast hugmyndinni að baki útikennsluappinu og þeim möguleikum sem forritið býr yfir. Áhersla er lögð á að þátttakendur fái tækifæri til að prófa appið á sérstakri gönguleið sem sett verður upp í nágrenni Hilton.Þátttakendur eru hvattir til að mæta með eigin græjur, snjallsíma eða spjaldtölvur (3G) og vera búnir til útiveru. Málstofan fer fram utandyra.
Helena Óladóttir er verkefnisstjóri Náttúruskóla Reykjavíkur á Skóla- og frístundasviði. Kjartan Akil Jónsson er hugbúnaðarsérfræðingur aGameCompany ehf.

5. Kennarar og jákvæð sálfræði

 
Heilbrigði og velferð með jákvæðri sálfræði
Hagnýt inngrip til að auka hamingju, vellíðan og sátt í skólastarfi með núvitund (mindfulness) og fimm leiðum að vellíðan (Five ways to wellbeing). Í þessari vinnustofu verður skoðað með hvaða hætti hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði getur eflt grunnþáttinn heilbrigði og velferð í skólastarfi. Sjónum verður beint að þeim þáttum sem stuðla að vellíðan og hvað þurfi til þess að einstaklingur geti „blómstrað“ (flourish) í skólanum.  Farið verður yfir hagnýtar leiðir sem auka vellíðan eins og þjálfun í núvitund (mindfulness) og það að verðlauna styrkleika umfram veikleika.
Ásdís Olsen kynnir hvernig kennarar geta nýtt sér Núvitund í lífi og starfi og gerir grein fyrir niðurstöðum úr mati á áhrifum markvissrar núvitundarþjálfunar kennara.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir fer yfir þær fimm leiðir sem rannsóknir sýna að virki hvað best til að auka vellíðan og kynnir hagnýtar leiðir úr verkfærakistu geðræktar í heilsueflandi grunnskólum sem kennarar geta nýtt með einföldum hætti til að bæta eigin líðan og nemenda.
Ásdís Olsen (B.Ed. og MA) kennir lífsleikni á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.  Hún hefur sérhæft sig í jákvæðri sálfræði með áherslu á núvitund í starfi kennarans (The Mindful Teacher). Hún lauk kennaranámi í Mindfulness frá Bangor háskóla í Wales og sérfræðinámi í Hugrænni atferlismeðferð (HAM) frá Endurmenntun Háskóla Íslands. 
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir (M.Sc/Cand.Psych) sálfræðingur hefur rannsakað hvaða þættir hafa áhrif á hamingju, heilsu og vellíðan. Dóra Guðrún situr í stjórn Evrópusamtaka um jákvæða sálfræði (ENPP) og vinnur sem sviðstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá embætti landlæknis ásamt því að kenna jákvæða sálfræði við HR.