Óskað eftir viðræðum um samræmda þjónustu við flóttafólk

Velferð Mannréttindi

""

Velferðarráð samþykkti á fundi sínum í gær að fela sviðsstjóra velferðarsviðs að hefja viðræður við Félagsmálaráðuneytið vegna þátttöku í reynsluverkefni um móttöku, aðstoð og þjónustu við fólk sem hlotið hefur alþjóðlega vernd á Íslandi. Félagsmálaráðuneytið hafði óskað eftir því að ganga til samninga við Reykjavík, Hafnarfjörð og Reykjanesbæ um reynsluverkefnið sem er til tólf mánaða, á grundvelli vinnu starfshóps sem Reykjavíkurborg átti ekki fulltrúa í.

Í samþykkt velferðarráðs felst að gera þurfi tilteknar breytingar á samningnum áður en hann verði samþykktur. Mikilvægt sé að tekið verði ríkara tillit til þjónustuþátta eins og húsnæðismála, ráðgjafar og þjónustu vegna barna og unglinga, svo sem þjónustu skóla- og frístundasviðs, íþrótta- og tómstundasviðs og Barnaverndar. Enn fremur telur velferðarráð mikilvægt að samningurinn verði afturvirkur fá 1. janúar 2020, hið minnsta en í fyrirliggjandi drögum frá ráðuneytinu er einungis gert ráð fyrir greiðslum frá 1. apríl.

Innan velferðarsviðs Reykjavíkurborgar býr mikil reynsla af vinnu með flóttafólki. Reykjavíkurborg tók á móti sjö hópum kvótaflóttafólks á árunum 2005–2017. Á þeim tíma komu 116 manns frá Kólumbíu, Kósóvó, Afganistan, Sýrlandi, Simbabve, Úganda og Kamerún.

Undanfarin ár hefur flóttafólki sem hingað kemur á eigin vegum og sækir um alþjóðlega vernd fjölgað til muna. Stærstur hluti þess hóps hefur sest að í Reykjavík. 501 af þeim 699 einstaklingum sem fengu alþjóðlega vernd og mannúðarleyfi hér á landi árið 2019 og það sem af er árinu 2020 búa í Reykjavík. Það er því ljóst að meginþungi í vinnu með flóttafólki hvílir á starfsfólki Reykjavíkurborgar.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, fagnar áformum um að samþætta og efla þjónustu við flóttafólk, enda sé nauðsynlegt að tryggja farsæla móttökuþjónustu og stuðla þannig að velferð einstaklinga og fjölskyldna. Það sé í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. „Hinsvegar ætti Reykjavíkurborg að koma sterkari að samningsborðinu en nú er gert ráð fyrir, í ljósi þess að mikill þungi þjónustu við flóttafólk hvílir á starfsfólki hennar. Þess vegna eru frekari viðræður við ráðuneytið nauðsynlegar, áður en tekin verði ákvörðun um að taka þátt í tilraunaverkefninu,“ segir hún.