Opnað fyrir umsóknir um götu- og torgsölu á morgun

Atvinnumál Mannlíf

""

Opnað verður fyrir úthlutun á nýjum leyfum fyrir götu- og torgsölu fimmtudaginn 15. febrúar kl. 9:00  á vef Reykjavíkurborgar og þarf að vera með virkt aðgengi að Mínum síðum í Rafrænu Reykjavík til að geta sótt um.

Götusala er leyfisskyld og tekur til hvers kyns sölustarfsemi sem fer fram á almannafæri utanhúss svo sem á torgum, gangstéttum og í almenningsgörðum. Undir götu og torgsölu fellur ekki námskeiðshald, kennsla, kynningar, sýningar, minniháttar góðgerðasala og viðburðir, hvort sem er í vögnum, bílum, gámum eða undir beru lofti.

Gerðar eru kröfur um góða umgengni og að starfsemi standist allar heilbrigðisreglur. Götu- og torgsala á að auka fjölbreytni og þjónustu í sátt við umhverfið og sóst er eftir fjölbreyttri þjónustu.

Jafnræði við úthlutun     

Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast og ræður það forgangi við úthlutun. Reglan „fyrstur kemur fyrstur fær“ er þannig í gildi og skapar ákveðið jafnræði með umsækjendum.  Eins og áður segir verður opnað fyrir umsóknir um götu- og torgsölu fimmtudaginn 15. febrúar kl. 9:00  á „mínum síðum” á vef Reykjavíkurborgar (Rafræn Reykjavík). Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér nýja samþykkt og hafa til reiðu þau fylgiskjöl sem fylgja þurfa umsókn.  Minnt er á að öll matsala er leyfisskyld og sótt er um leyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Fylgiskjöl með umsókn eru meðal annars mynd af söluaðstöðu, sem og skýrsla skoðunarstofu fyrir rafmagn og gas.

Tengt efni: